Hátt hlutfall eldra fólks á vinnumarkaði

Í grein á norska vefritinu Seniorpolitikk er fjallað um hátt hlutfall eldra fólks á vinnumarkaði hérlendis, en eins og fjallað var um á vef SA í desember sl. er atvinnuþátttaka eldra fólks mest hérlendis innan OECD.  Fram kemur í norsku greininni að ástæður þessa sé að finna í hvoru veggja "vinnukúltúr" Íslendinga og í almennt lægri tekjum fólks eftir starfslok en annars staðar á Norðurlöndunum, þótt hið síðarnefnda sé reyndar að breytast.

Í grein norska vefritsins er m.a. rætt við Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins. Hannes er m.a. spurður hvort Íslendingar eigi eitthvert hugtak fyrir stefnumótun um málefni eldra fólks á vinnumarkaði ("seniorpolitikk"), en Hannes segir svo líklega ekki vera. Hannes segir að sögulega séð hafi "eldra" fólk alltaf verið hluti af íslenskum vinnumarkaði og allir talið það sjálfsagt mál.

Hannes segir að víða annars staðar hafi það verið gert of auðvelt fjárhagslega að láta snemma af störfum og nú leiti mörg þessara landa leiða til að snúa við þróun í þá átt að fólk fari sífellt yngra á eftirlaun. Hérlendis séu lífeyrismál í betra horfi en víðast annars staðar og vissulega séu yngri kynslóðir líklegar til að vilja hætta störfum fyrr en þær eldri. Hannes segir það þó mjög óæskilega þróun og telur að íslenskt atvinnulíf myndi tapa verulega á því. Þess má geta að skv. könnun SA sem birt var í janúar sl. er vinnuframlag eldra starfsfólks mjög mikils metið af forsvarsmönnum íslenskra fyrirtækja. 

Sjá umfjöllun norska vefritsins.