Hátekjustörf vantar á landsbyggðinni

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, gerði hátekjustörf, launajöfnuð og -ójöfnuð og Gini-stuðulinn m.a. að umtalsefni í yfirgripsmiklu erindi um skattamál sem hann flutti á skattadegi Deloitte. Vilhjálmur sagði m.a.: "Fyrir 10 - 15 árum var mikið rætt um nauðsyn þess að skapa hálaunastörf á Íslandi en nú þegar þau hafa orðið til, og háar tekjur hafa skapast, virðist svo sem misskipting teknanna sé stórt vandamál þrátt fyrir að langflestir Íslendingar njóti almennt hærri tekna en nokkru sinni fyrr hvert sem litið er í tekjumynstrinu.

Reyndar er það svo að eitt helsta raunverulega vandamál okkar er einmitt að hálaunastörfin og háu tekjurnar hafa ekki skapast á öllum stöðum á landinu og því sitja nokkrar byggðir eftir í þróuninni.  Þannig horfi ég oft til svæða eins og Vestur Húnavatnssýslu, Dalasýslu og Vestur Skaftafellssýslu og spyr sjálfan mig. Eru þetta ekki þau svæði á landinu þar sem tekjuskiptingin er jöfnust?  En eru þetta ekki líka svæði sem vantar háu tekjurnar?  Sem vantar misskiptinguna?  Eru þetta ekki einmitt svæði sem sitja uppi með það lítt eftirsóknarverða réttlæti að jöfnuðurinn felst í of jafn lágum tekjum?  Það væri sannarlega betra fyrir þessi svæði að fá inn fólk með háar tekjur, fólk sem getur framkvæmt og skapað eitthvað í kringum sig. Það vantar sárlega meiri misskiptingu, ljótari Gini stuðul, inn á þessi svæði.  Þá færu þau að taka við sér."

Sjá má erindi Vilhjálms Egilssonar í heild hér.

Sjá einnig glærur Vilhjálms.