Háskattalandið Ísland

Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, fjallaði um skatta og opinber útgjöld á Íslandi í samanburði við önnur lönd á opnum fundi SA um atvinnumál sem fram fór fyrr í dag. Hannes sagði Ísland vera háskattaland og opinber útgjöld einnig mikil. Þannig er Ísland í hópi þeirra ríkja innan OECD sem verja hlutfallslega mestum fjármunum til almennrar opinberrar þjónustu, heilbrigðismála og menntamála. Ísland ver þriðja hæsta hlutfallinu til opinberrar þjónustu, fjórða hæsta hlutfallinu til heilbrigðismála og hæsta hlutfallinu til menntamála.

Hannes sagði mikilvægt að ná jöfnuði í ríkisfjármálum á Íslandi og stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs. Vænlegast til árangurs í opinberum fjármálum væri að stuðla að fjölgun skattgreiðenda og auknum umsvifum í hagkerfinu. Hvetja verði til nýsköpunar og fjárfestinga í atvinnulífinu sem leiði til fjölgunar starfa og dragi úr bótagreiðslum. Frekari skattahækkanir geti valdið efnahagslífinu skaða.

Hannes G. Sigurðsson.

"Mikil opinber útgjöld hér á landi kalla á háa skatta. En vandinn við háa skatta er að þeir bitna á hagvexti og atvinnusköpun. Skattarnir hafa áhrif á samkeppnishæfni atvinnulífsins, hvort sem þeir eru beinir eða óbeinir, innheimtir af fyrirtækjum eða einstaklingum. Það er hægt að draga úr opinberum útgjöldum, án þess að samsvarandi skerðing verði á þjónustu, en það er langtímaverkefni."

Hannes vék að samanburði Íslands og Norðurlandanna.  "Við berum okkur jafnan saman við Norðurlöndin og viljum gera það sem best er gert þar. Norðurlöndin eru mestu háskattalönd heimsins. Þrátt fyrir það eru þau mjög samkeppnisfær alþjóðlega. Þau eru ólík innbyrðis, hvert með sín sérkenni. Norðmenn eru í sérflokki með sínar auðlindir. Útflutningsvörur Dana, Svía og Finna eru hátækniafurðir með mikinn virðisauka sem staðið geta undir hárri skattbyrði heima fyrir. Íslenskt atvinnulíf er gerólíkt atvinnulífinu á Norðurlöndum. Grunngerð og skipulag íslensks efnahagslífs er þannig úr garði gert að ólíklegt er að það geti verið í fremstu röð í alþjóðlegri samkeppni og jafnframt með einhverja hæstu skattbyrði sem um getur."

Sjá má erindi Hannesar hér að neðan ásamt glærum með talnaefni til skýringa:

"Góðir fundarmenn

Umfjöllunarefni mitt eru skattar og opinber útgjöld á Íslandi í samanburði við önnur lönd. Spurningin er hvar Ísland stendur, hvort við viljum vera þar og hvort við getum það. Algengasti mælikvarðinn á skattbyrði ríkja er hlutfall allra skatttekna hins opinbera af landsframleiðslu. Efnahags- og framfarastofnunin - OECD - safnar saman og birtir slíkan samanburð um aðildarríkin 34, en meðal þeirra eru öll ríkustu lönd heims.

Eitt einkenni á ríkum löndum í samanburði við þau fátækari er að skattbyrðin er hærri. Það krefst mikilla skatttekna að bjóða upp á ódýra eða ókeypis menntun fyrir alla, hágæða heilbrigðiskerfi fyrir alla, trygga fjárhagsafkomu aldraðra og öryrkja, stjórnsýslu sem setur lög og reglur og tryggir framkvæmd þeirra, og dómstóla og löggæslu sem tryggja jafnræði og öryggi. Svo það helsta sé nefnt. En sum ríki eru við, eða farið út fyrir ystu mörk hvað skattbyrði varðar.

(Mynd 1). Skatthlutfall meðal OECD ríkjanna hefur jafnt og þétt farið hækkandi síðastliðna hálfa öld Árið 1965 var skatthlutfallið 25% að meðaltali í OECD-ríkjunum en var komið upp 35% árið 2008. Á þessari tæpu hálfu öld hefur hlutfallið á Íslandi að jafnaði verið svipað og að meðaltali í OECD-ríkjunum en það hefur sveiflast nokkuð eftir efnahagsástandinu. Í svonefndum góðærum, sem yfirleitt fylgja viðskiptahalli og erlend skuldasöfnun, hefur skatthlutfallið verið hátt og öfugt þegar illa hefur árað. Á myndinni sést að árin 2000 og 2005, en bæði árin ríkti mikil þensla í efnahagslífinu, var Ísland vel yfir OECD meðaltalinu en samkvæmt nýjustu upplýsingum, sem eru frá 2009, var Ísland á svipuðum stað og OECD-meðaltalið (Mynd 2). Þegar litið er á einstök lönd eru frændur okkar í Danmörku og Svíþjóð skattakóngarnir, og Finnland og Noregur eru ekki langt undan.

Samanburður milli landa á grundvelli þessa hugtaks, heildarskatttekjur hins opinbera í hlutfalli við landsframleiðslu, gefur þannig til kynna að Ísland sé hvorki háskatta- né lágskattaland, heldur miðlungsland hvað skattbyrði varðar. Það er því miður ekki í samræmi við veruleikann. Ástæðan liggur einkum í skipulagi lífeyrismála hér á landi. Flest OECD-ríkin búa við gegnumstreymiskerfi, þ.e. fjármagna ellilífeyri á hverjum tíma með sérstökum sköttum sem renna til lífeyrisgreiðslna, en Ísland auk fárra annarra ríkja byggir að mestu á söfnunarsjóðum. Með öðrum orðum er fyrirkomulagið á Íslandi þannig að iðgjöldum í lífeyrissjóði og ávöxtun þeirra er að mestu ætlað að standa undir lífeyrisgreiðslum. Lögbundin iðgjöld í lífeyrissjóði nema ár hvert u.þ.b. 7% af landsframleiðslu og í alþjóðlegum samanburði á skattbyrði í ríkjum með gegnumstreymiskerfi og söfnunarsjóðskerfi verður að taka tillit til mismunandi fjármögnunar lífeyrisgreiðslna ef draga á upp raunhæfa mynd af stöðu mála. Að auki er aldurssamsetning íslensku þjóðarinnar hagstæðari en í allflestum samanburðarlöndunum, þ.e. Íslendingar eru tiltölulega ung þjóð, sem felur í sér að byrði vegna lífeyrisþega er minni.

Það vakti óverðskuldað litla athygli þegar skattasérfræðingar AGS bentu á það í skýrslu í fyrravor að hlutfall skatta á Íslandi af landsframleiðslu, að viðbættum lögbundnum iðgjöldum til lífeyrissjóða, hefði verið það næst hæsta í heiminum árið 2007. Aðeins í Danmörku hefði skattbyrðin verið hærri. Að vísu voru skatttekjur hins opinbera óvenju miklar það ár vegna stóraukinnar skuldsetningar heimila og fyrirtækja sem varið var til ósjálfbærrar neyslu og fjárfestinga, en þessi ábending AGS, að skattbyrði á Íslandi hafi nánast hvergi í heiminum verið meiri um árabil, verðskuldar meiri umfjöllun.

(Mynd 3) Þau gögn um skattamál sem OECD birtir gefa færi á samanburði á skattbyrði milli landa, að frádregnum framlögum til lífeyristrygginga (á ensku social security contributions og við köllum tryggingagjald). Með þeim hætti er mismunandi fjármögnun lífeyrisgreiðslna einangruð frá og eftir stendur skattbyrði sem er samanburðarhæfari milli landa.

Þegar framlög til lífeyristrygginga eru dregin frá skatttekjum hins opinbera kemur allt önnur mynd í ljós en þegar litið er á skatthlutfallið í heild. Þá er Íslandi í 4-5 sæti ásamt Noregi með 31% skatthlutfall, á eftir Danmörku, Svíþjóð og Nýja-Sjálandi. Það verður þó að geta þess að þessi aðferð við samanburð á skattbyrði er sérlega ósanngjörn gagnvart Danmörku þar sem lífeyrisgreiðslur hins opinbera eru fjármagnaðar með almennum sköttum, andstætt því sem gerist víðast annars staðar. Að því sögðu er niðurstaða samanburðarins sú að Ísland er í hópi þeirra ríkja sem búa við mestu skattbyrðina þrátt fyrir mikið fall skatttekna hins opinbera vegna efnahagssamdráttarins.

Frá árinu 2009 hafa ýmsir skattar verið hækkaðir hér á landi, m.a. virðisaukaskattur, tryggingagjald, fjármagnstekjuskattur, tekjuskattur fyrirtækja og ýmis vörugjöld. Að mati OECD og AGS hækkaði skatthlutfallið hér á landi um 1,2% af landsframleiðslu árið 2010 þannig að Ísland hefur fest sig enn frekar í sessi sem háskattaland.

(Mynd 4) Í fyrrnefndri skýrslu AGS var bent á að Ísland væri háskattaland og því yrði ríkisvaldið að gæta mikillar varkárni og skilvirkni við öflun viðbótartekna. Ella gæti efnahagslífið orðið fyrir alvarlegum skaða.

Önnur ábending skattasérfræðinga AGS var að ef vilji stjórnvalda stæði til þess að jafna kjör þegnanna væri mun betra að gera það í gegnum útgjaldahlið ríkisfjármálanna en tekjuhlið. Reynslan sýndi að þau ríki sem næðu mestum árangri við jöfnun kjara gerðu það í gegnum bótakerfi, ekki skattkerfið. Í stað mikillar stighækkunar skatta bæri að leggja áherslu á tekjuöflunarhæfni skattkerfisins og ef vilji væri til þess að auka jöfnuð ætti að gera það í gegnum bótakerfi.

Í skýrslu OECD um Ísland árið 2001 var Íslandi hrósað fyrir viðleitni og árangri við breikkun skattstofna og lækkun skatthlutfalla og var hvatt til þess að haldið væri áfram á þeirri braut. Því miður gerðist ekki mikið í þeim efnum eftir það og á undanförnum árum hefur verið vikið af þeirri leið. Í nýlegri skýrslu OECD[1] er enn komist að þeirri niðurstöðu að skattalegar umbætur sem breikki skattstofna dragi úr skaðlegum áhrifum skatta á ákvarðanir um vinnu, fjárfestingar og neyslu, auki framleiðslu og skapi svigrúm til aukinnar velferðarþjónustu. Þrátt fyrir þessar staðreyndir halda mörg ríki áfram sérstökum ívilnunum á mörgum sviðum skattkerfisins með það að markmiði að hafa áhrif á tekjuskiptingu eða að bæta stöðu tiltekinna hagsmunahópa. Hverjar sem ástæðurnar eru þá fela slíkar ívilnanir í sér tekjutap fyrir hið opinbera sem augljóslega leiðir til þess að aðrir skattar eru hærri en ella.

(Mynd 5) Árið 2009 námu gjöld hins opinbera á Íslandi, þ.e. ríkis, sveitarfélaga og almannatrygginga, 51% af landsframleiðslu og var Ísland í ellefta sæti meðal aðildarríkja OECD. Meðaltal OECD ríkjanna var 45% en meðaltal ESB-ríkjanna var 51% eins og á Íslandi. Danmörk trónir á toppnum í þessum samanburði eins og verið hefur um langt árabil með 58% hlutfall opinberra útgjalda af VLF. Þar á eftir koma Frakkland, Svíþjóð og Finnland.

Það sama gildir um alþjóðlegan samanburð á gjöldum hins opinbera og sköttum að taka þarf tillit til mismunandi fyrirkomulags lífeyrismála. Það er hægt að gera á grundvelli gagna OECD og bera saman opinber útgjöld, að frádregnum útgjöldum til almanntrygginga og velferðarmála.

Ísland er í hópi þeirra ríkja sem verja hlutfallslega mestum fjármunum til almennrar opinberrar þjónustu, heilbrigðismála og menntamála. Ísland ver þriðja hæsta hlutfallinu til opinberrar þjónustu, fjórða hæsta hlutfallinu til heilbrigðismála og hæsta hlutfallinu til menntamála.

Almannatryggingar og velferðarmál (e. social protection) er hins vegar útgjaldafrekasti málaflokkurinn hjá flestum þjóðunum. Undir þann lið falla lífeyrisgreiðslur almannatrygginga, sjúkratryggingar, atvinnuleysisbætur, barnabætur, húsnæðisbætur og önnur félagsleg aðstoð. Ísland er í hópi þeirra þjóða sem verja hlutfallslega minnstum fjármunum til þessa málaflokks. Skýringarnar liggja annars vegar í lífeyrisgreiðslum lífeyrissjóða, sem allar flokkast utan hins opinbera og nema nærri 5% af landsframleiðslu árlega, og hins vegar í því að lífeyrisþegar eru hlutfallslega fáir hér á landi borið saman við aðrar þjóðir. Aðrar skýringar eru m.a. þær að reglur hér á landi um greiðslu launa í veikindum eru mjög frábrugðnar því sem víðast gerist og útgjöld hins opinbera minni en annars staðar.

(Mynd 6) Raunhæfur samanburður á opinberum útgjöldum á Íslandi í samanburði við aðrar þjóðir þarf því að taka mið af framangreindum sérkennum. Þá kemur í ljós að opinber útgjöld á Íslandi, til annarra málaflokka en almannatrygginga og velferðarmála, eru langhæst af öllum OECD-ríkjunum. Hlutfallið á Íslandi var tæplega 40% af landsframleiðslu árið 2009 en hlutfallið í Belgíu, sem kemur næst, var tæplega 35%. Hlutfallið var 31% að meðaltali í þeim 28 ríkjum sem þessi samanburður nær til.

(Mynd 7) Mikilvægt er að ná jöfnuði í ríkisfjármálum á Íslandi og stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs. Til þess eru tvær leiðir, að auka skatttekjur og draga úr útgjöldum. Mikil opinber útgjöld hér á landi kalla á háa skatta. En vandinn við háa skatta er að þeir bitna á hagvexti og atvinnusköpun. Skattarnir hafa áhrif á samkeppnishæfni atvinnulífsins, hvort sem þeir eru beinir eða óbeinir, innheimtir af fyrirtækjum eða einstaklingum. Það er hægt að draga úr opinberum útgjöldum, án þess að samsvarandi skerðing verði á þjónustu, en það er langtímaverkefni.

(Mynd 8)  Vænlegast til árangurs í opinberum fjármálum er að stuðla að fjölgun skattgreiðenda og auknum umsvifum í hagkerfinu. Hvetja verður til nýsköpunar og fjárfestinga í atvinnulífinu sem leiðir til fjölgunar starfa og dregur úr bótagreiðslum.

Við berum okkur jafnan saman við Norðurlöndin og viljum gera það sem best er gert þar. Norðurlöndin eru mestu háskattalönd heimsins. Þrátt fyrir það eru þau mjög samkeppnisfær alþjóðlega. Þau eru ólík innbyrðis, hvert með sín sérkenni. Norðmenn eru í sérflokki með sínar auðlindir. Útflutningsvörur Dana, Svía og Finna eru hátækniafurðir með mikinn virðisauka sem staðið geta undir hárri skattbyrði heima fyrir. Íslenskt atvinnulíf er gerólíkt atvinnulífinu á Norðurlöndum. Grunngerð og skipulag íslensks efnahagslífs er þannig úr garði gert að ólíklegt er að það geti verið í fremstu röð í alþjóðlegri samkeppni og jafnframt með einhverja hæstu skattbyrði sem um getur."

Tengt efni:

Glærur Hannesar

Frétt RÚV - Sjónvarps


[1] Chosing a Broad Base - Low Rate Approach to Taxation, OECD 2010