Hár launakostnaður á Íslandi

Heildarlaunakostnaður á Íslandi er hærri en meðaltal heildarlaunakostnaðar innan Evrópusambandsins þegar horft er til helstu atvinnugreina á almennum vinnumarkaði. Ný rannsókn á launakostnaði fyrirtækja í Evrópu sýnir að á Íslandi er heildarlaunakostnaður á almennum vinnumarkaði mestur í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, 29 evrur á vinnustund en minnstur í verslun og ýmissi viðgerðarþjónustu, 22,5 evrur. Hlutfall annars launakostnaðar en launagreiðslna af heildarlaunakostnaði er hæst í samgöngum og flutningum, 17% en lægst í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, 14,7%. Frá þessu er greint á vef Hagstofunnar.

Minni munur á evrusvæði

Samanburður á launakostnaði í þeim atvinnugreinum sem rannsóknin nær til á Íslandi sýnir að heildarlaunakostnaður á Íslandi er í öllum tilvikum hærri en meðaltal heildarlaunakostnaðar innan Evrópusambandsins. Ef borin er saman heildarlaunakostnaður á Íslandi og meðatal heildarlaunakostnaðar innan evrusvæðisins er munurinn hins vegar minni.

Ísland í efstu sætum

Launakostnaður í byggingarstarfsemi er einungis hærri í Danmörku en á Íslandi og skýrist hár kostnaður á Íslandi að hluta til af mikilli yfirvinnu. Ísland er í þriðja sæti í samgöngum og flutningum, í sjöunda sæti í verslun og í ellefta sæti í iðnaði, sem er nálægt meðaltali launakostnaðar í iðnaði á evrusvæðinu. Í ljósi þess að launatengd gjöld og annar óbeinn launakostnaður er mun lægri hér á landi en í ESB ríkjunum raðast Ísland enn hærra þegar launin eru borin saman ein og sér.

  Launakostnaður 2004

Smellið til að sjá stærri mynd

Ísland í alþjóðlegu ljósi

Niðurstöður rannsóknarinnar má nálgast í nýju hefti Hagtíðinda sem ber heitið "Alþjóðlegur samanburður á launakostnaði 2004". Rannsóknin er framkvæmd á vegum Hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat, með þátttöku allra aðildarríkja sambandsins auk Íslands og Noregs. Tilgangur rannsóknarinnar er að safna samræmdum upplýsingum um launakostnað í Evrópu. Upplýsingar um Ísland ná til eftirfarandi atvinnugreina á almennum vinnumarkaði: iðnaðar, byggingarstarfsemi og mannvirkjagerðar, verslunar og ýmissar viðgerðarþjónustu) og samgangna og flutninga.

Sjá nánar rit Hagstofu: Alþjóðlegur samanburður á launakostnaði 2004