Handbók um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa

Í samræmi við aðgerðaáætlun um Einfaldara Ísland hefur verið tekin saman á vegum ráðuneyta og skrifstofu Alþingis handbók um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa. Þar er safnað saman á einn stað þeim viðmiðum sem telja má að gildi um framsetningu stjórnarfrumvarpa og athugasemda með þeim. Jafnframt eru settar fram leiðbeiningar um hvernig standa eigi að undirbúningi frumvarpa í ráðuneytum, meðal annars að því er varðar samráð og mat á áhrifum. Meðal lykilþátta sem höfundar nýrra frumvarpa þurfa að meta er kostnaður og ávinningur fyrirtækja af fyrirhugaðri lagasetningu.

Í formála handbókarinnar segir Geir H. Haarde forsætisráðherra meðal annars: "Þótt Alþingi eigi lokaorðið um lagasetningu þá er það staðreynd að stór hluti samþykktra laga eiga rætur í stjórnarfrumvörpum. Það hvílir því mikil ábyrgð á ráðuneytunum að búa frumvörp sem best úr garði og skapa forsendur fyrir því að löggjöfin verði sem vönduðust."

Geir bendir á að sú nýbreytni hafi verið tekin upp um síðustu áramót að láta gátlista fylgja stjórnarfrumvörpum við meðferð í ríkisstjórn til að auðvelda ráðherrum að ganga úr skugga um að gætt hefði verið að tilteknum lykilatriðum við undirbúning frumvarpa. Þá bendir hann á að handbókin fjalli ekki um útgáfu reglugerða en vissulega velti einnig á miklu að þar sé vandað til verka af hálfu ráðuneyta. Stefnt sé að því að dóms- og kirkjumálaráðuneytið gefi út leiðbeiningar um það efni síðar í vetur.

Sjá nánar á vef forsætisráðuneytis:

Handbókin sem PDF skjal

Einfaldara Ísland