Halldór Benjamín í framkvæmdanefnd BusinessEurope

Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA tekur sæti í framkvæmdanefnd BusinessEurope frá og með áramótum til tveggja ára. Þetta kom fram á forsetafundi BusinessEurope sem fram fór í dag sem Halldór sótti ásamt Eyjólfi Árna Rafnssyni formanni SA og Davíð Þorlákssyni forstöðumanni samkeppnishæfnisviðs SA.

Heiðursgestur fundarins var Antonio Costa forsætisráðherra Portúgal, en Portúgal tekur við forsæti í ráðherraráði Evrópusambandsins um áramótin. BusinessEurope eru öflugustu hagsmunasamtök Evrópu með um 20 milljón aðildarfyrirtæki í 35 löndum. Þeirra á meðal eru aðildarfyrirtæki Samtaka atvinnulífsins. BusinessEurope beita sér fyrir betra rekstarumhverfi fyrirtækja í Evrópu og ábyrgara viðskiptalífi.