Efnahagsmál - 

16. janúar 2004

Hálf milljón aukalega á mann

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Hálf milljón aukalega á mann

Samkvæmt nýjustu gögnum stefnir hlutfall launa af verðmætasköpuninni í 70% og nálgast þannig sögulegt hámark. Launahlutfallið er mun hærra á Íslandi en hjá öðrum Evrópuþjóðum. Í Evrópusambandinu í heild (ESB-15) var hlutfallið 57,4% á síðasta ári og hefur það verið tiltölulega stöðugt en er þó nokkuð lægra nú en í upphafi síðasta áratugar. Meðaltal síðustu 10 ára er 57,0% í ESB.

Samkvæmt nýjustu gögnum stefnir hlutfall launa af verðmætasköpuninni í 70% og nálgast þannig sögulegt hámark. Launahlutfallið er mun hærra á Íslandi en hjá öðrum Evrópuþjóðum. Í Evrópusambandinu í heild (ESB-15) var hlutfallið 57,4% á síðasta ári og hefur það verið tiltölulega stöðugt en er þó nokkuð lægra nú en í upphafi síðasta áratugar. Meðaltal síðustu 10 ára er 57,0% í ESB.

Hálf milljón á hvern vinnandi mann
Ef launahlutfallið á Íslandi væri það sama og í ESB, þ.e. 57% í stað 69% þá yrði 90 milljörðum króna meiri afgangur hjá fyrirtækjunum ár hvert. Þessi upphæð nemur meira en hálfri milljón króna á hvern vinnandi mann, en um þetta var fjallað í fréttabréfi SA á dögunum.

Þegar launum og launatengdum gjöldum er skipt upp á milli einka- og opinbera geirans kemur í ljós að meginskýringin á hækkun hlutfallsins á þessum árum liggur ekki í launahækkunum hjá hinu opinbera, enda er opinberi vinnumarkaðurinn mun fámennari en sá almenni og stendur aðeins fyrir rúmum fjórðungi launagreiðslna í heild en tæpir þrír fjórðu launagreiðslna eiga uppruna sinn í einkageiranum.

Ástæður að finna í þenslu árin 1998 og 1999
Helstu ástæðu þessa háa launahlutfalls hér á landi virðist vera að leita til þenslunnar í atvinnulífinu árin 1998 og 1999, sem leiddi til mikillar vinnuaflseftirspurnar, launahækkana og kaupmáttarauka en framleiðniþróun vinnuafls var á sama tíma slök þannig að launafólk fékk stórbætt kjör á kostnað afkomu atvinnulífsins. Þróun þessara ára leiddi til þess að launahlutfallið á Íslandi komst í sögulegt hámark, sem sker sig úr í alþjóðlegum samanburði, og það hefur haldist þannig síðan. Þróunina má að stærstu leyti rekja til einkageirans, enda er opinbera vinnumarkaðurinn mun fámennari en sá almenni og stendur aðeins fyrir rúmum fjórðungi launagreiðslna í heild.

Kjarabætur næstu ára verða ekki sóttar í hagnað fyrirtækja
Kjarabætur verða því ekki sóttar í rekstrarafgang fyrirtækja á næstu árum. Einungis aukin framleiðni fær staðið undir raunverulegum kjarabótum og þess er ekki að vænta að framleiðni í heild aukist um meira en 1,0-1,5% árlega. Vinnuaflsfrekur hagvöxtur sem byggist á mikilli mannvirkjagerð stuðlar ekki að mikilli framleiðniaukningu á meðan á framkvæmdum stendur heldur má þvert á móti fremur búast við fremur hægri framleiðniaukningu. Það var t.d. reynslan á þensluárunum 1998-1999 þegar framleiðni jókst um innan við 1% árlega. Það er því mikill misskilningur að hægt verði að byggja aukinn kaupmátt alls launafólks í landinu á virkjunarframkvæmdum við Kárahnjúka og annars staðar og verksmiðjubyggingum á Reyðarfirði og hugsanlega Grundartanga.

Samtök atvinnulífsins