Háir vextir og óvissa hamla fjárfestingum

Rúmlega sex af hverjum tíu (62%) forsvarsmanna aðildarfyrirtækja Samtaka atvinnulífsins telja að umtalsverð lækkun stýrivaxta og samsvarandi lækkun útlánsvaxta banka myndi hvetja fyrirtæki þeirra til fjárfestinga. Þetta kemur fram í könnun sem SA létu gera meðal aðildarfyrirtækja í byrjun apríl 2010. Þetta er sama niðurstaða og fram kom í sams konar könnun SA í október 2009. Meira en fjórir af hverjum fimm forsvarsmanna veitufyrirtækja svöruðu spurningunni játandi og þrír af hverjum fjórum í ferðaþjónustu. Meirihluti stjórnenda í öllum atvinnugreinum telur að umtalsverð lækkun vaxta muni örva fjárfestingu.

Rúmlega 70% forsvarsmanna í fyrirtækjum með 26-500 starfsmenn telja umtalsverða vaxtalækkun hvetja til fjárfestinga, rúmlega 60% í fyrirtækjum með 6-25 starfsmenn, rúmlega 50% með færri en 5 starfsmenn en einungis þriðjungur forsvarsmanna fyrirtækja með fleiri en 500 starfsmenn álíta að svo sé.

Forsvarsmenn fyrirtækjanna voru beðnir um að raða sjö skýringum á því hvað einkum hamli fjárfestingum í atvinnulífinu. Þær skýringar, sem taldar voru upp í stafrófsröð, voru eftirfarandi: Áhættufælni fyrirtækisins, háir vextir, lítil eftirspurn í hagkerfinu, mikil skuldsetning fyrirtækisins, óvissa um rekstrarumhverfi, skertur aðgangur að innlendu lánsfé og skertur aðgangur að erlendu lánsfé. Flestir (31%) töldu háa vexti skipta mestu máli en fast þar á eftir kom óvissa um rekstrarumhverfi (25%). 12-13% töldu hverja skýringanna litla eftirspurn í hagkerfinu, mikla skuldsetningu og skertan aðgang að lánsfé vera mikilvægastar og lestina rak skertur aðgangur að erlendu lánsfé.