Háir skattar á laun auka atvinnuleysi

Það hefur verið viðtekin skoðun áhrifamikilla sænskra hagfræðinga að launatengdir skattar hafi þegar til lengdar lætur lítil áhrif á atvinnustig. Lækkun skatta dragi því ekki úr atvinnuleysi. Skýringin væri sú að lækkun skatta leiði aðeins til aukinna launakrafna og hærri launa en hafi til lengdar engin áhrif á launakostnað fyrirtækja. Í nýrri rannsóknarskýrslu fyrir samtök atvinnulífsins í Svíþjóð, Svenskt Näringsliv (SN), er hins vegar komist að gagnstæðri niðurstöðu. Háir skattar dragi úr atvinnu og auki atvinnuleysi.

Atvinnuþátttaka minnkandi í Svíþjóð

Um mitt þetta ár var skráð atvinnuleysi í Svíþjóð um 6% eða tiltölulega lágt miðað við mörg önnur Evrópulönd. Í skýrslunni segir þó að draga verði í efa að opinberar tölur um atvinnuleysi í Svíþjóð gefi rétta mynd. Tölurnar byggjast ekki á alþjóðlegri skilgreiningu atvinnuleysis. Nemendur í atvinnuleit teljast t.d. ekki til atvinnulausra og eru þeir um þessar mundir rúmlega 2% af mannafla. Vinnumarkaðsaðgerðir sem beinast að þeim sem ella teldust atvinnulausir eru mjög umfangsmiklar í Svíþjóð og myndi það auka atvinnuleysi um 5% ef viðkomandi einstaklingar yrðu taldir með. Þá hefur því verið haldið fram í rannsóknum að líta megi á mjög mikla fjölgun fólks sem fer á örorku- eða eftirlaun á vinnualdri eða eru til lengdar skráðir frá vinnu vegna veikinda sem dulið atvinnuleysi. Þegar litið er til þessara þátta er atvinnuleysi í Svíþjóð því yfir 15% að mati Svenskt Näringsliv. Í Svíþjóð er það vaxandi vandamál hve margir hverfa af vinnumarkaði og leita skjóls í hinum ýmsu stuðningskerfum velferðarkerfisins. Þetta birtist í því að þrátt fyrir tiltölulega lágt skráð atvinnuleysi hefur atvinnuþátttaka minnkað og meðalfjöldi árlegra vinnuvikna fólks á vinnualdri er með því lægsta í OECD-löndum. Svíar glíma því í vaxandi mæli við það vandamál að hlutfall þeirra sem stunda atvinnu fer lækkandi. Vinnandi fólk þarf að rísa undir framfærslu hinna sem ekki stunda vinnu, en sá hópur fer stöðugt vaxandi.

Launatengdir skattar draga úr atvinnu

Í skýrslu SN segir að fyrri rannsóknir á sambandi skatta og atvinnuleysis hafi verið ófullnægjandi, en þær beindust einkum að því að greina áhrif skattabreytinga á launamyndun en litið var horft til neikvæðra áhrifa skatta á atvinnusköpun. Nýjustu rannsóknir á áhrifum skatta á eftirspurn og framboð á vinnumarkaði sýni ótvírætt að launatengdir skattar dragi úr atvinnu og auki á atvinnuleysi. Spurningin er aðeins hve mikil þessi áhrif séu.

Þá hafa aðstæður á vinnumarkaðnum breyst. Atvinnuleysi er t.d. meira en áður var, eftirspurn eftir vinnuafli er verðteygnari m.a. vegna aukinna möguleika fyrirtækja til að færa vinnuaflsfreka starfsemi til landa þar sem launakostnaður er lægri, auk þess sem framboð á vinnumarkaði er einnig talið verðteygnara en áður. Af þessari ástæðu hafa skattar neikvæðari áhrif á atvinnu en áður var.

Samspil skatta og vinnumarkaðar

Háir skattar eru vissulega ekki eina skýringin á miklu atvinnuleysi. Aðrir þættir skipta einnig miklu máli ekki síst vinnumarkaðsaðgerðir. Örlát bótakerfi vegna atvinnuleysis, veikinda, örorku og eftirlauna skipta miklu máli sem og annað sem lýtur að sveigjanleika vinnumarkaðar. Niðurstaða skýrslunnar er sú að skattar ásamt öðrum ráðstöfunum sem draga úr ávinningi fólks af því að stunda launaða vinnu fremur en að leita annarra leiða til framfærslu dragi úr atvinnu og auki atvinnuleysi.

Skýrsla SN (PDF-skjal).