Háir jaðarskattar skaða danskt efnahagslíf

Fjallað er um stöðuna á dönskum vinnumarkaði í nýlegu riti DI sem ber heitið Fuld styrke. Dönum er hugleikið að fjölga fólki á vinnumarkaði og að fá Dani til að vinna meira svo koma megi Danmörku á fulla ferð. Hjól efnahagslífsins þar í landi snúast nú af miklum krafti en skortur er á starfsfólki í Danmörku um þessar mundir og háir það vexti danskra fyrirtækja verulega. Mörg fyrirtækja anna ekki eftispurn og verða af umtalsverðum tekjum fyrir vikið. Raunar fullyrða DI að hagvöxtur Danmerkur sé í hættu og að samkeppnishæfni þjóðarinnar geti beðið skaða. En hvað veldur?

Öflug hindrun

DI telja það augljóst að háum jaðarsköttum sé um að kenna en vegna þeirra hefur reynst erfitt að fjölga fólki á vinnumarkaði og dönskum fyrirtækjum hefur gengið erfiðlega að ráða til sín erlent starfsfólk, t.d. sérfræðinga með mikilvæga reynslu og þekkingu sem koma til starfa í landinu í lengri eða skemmri tíma. DI benda á að skattheimtan hindri leið fólks inn á danskan vinnumarkað og hvatinn til vinnu sé ekki orðinn mikill þegar fólk haldi aðeins eftir 37 krónum af síðustu 100 krónunum  sem það vinni sér inn. Miklu myndi breyta ef jaðarskattarnir væru að hámarki 50% en jaðarskattar á hálaunafólk í Danmörku eru a.m.k. 63% en geta þó verið hærri.

Atgervisflótti frá Danmörku

Hinir háu skattar í ríki Dana hafa margs konar áhrif. Þeir letja ekki aðeins fólk til vinnu heldur hvetja þeir einnig fólk til að flytjast úr landi og finna sér vinnu þar sem það ber meira úr býtum. Oftar en ekki er um vel menntað og hæft starfsfólk að ræða - fólk sem snýr ekki aftur heim. Frá því upp úr 1980 hafa um t.d. um 14 þúsund vel menntaðir Danir horfið til starfa á erlendum vettvangi án þess að skila sér aftur heim. Danir sakna þeirra nú sárt í þenslunni en samkvæmt úttekt DI frá 2003 segja 80% þeirra ástæðuna fyrir því að þeir flytjist ekki aftur heim sé danski skatturinn.

Fuld styrke er hægt að nálgast á vef DI (PDF-skjal).