Hagvöxtur verði tryggður

Viðfangsefni númer eitt er að tryggja áframhaldandi hagvöxt hér á landi um ókomna framtíð sagði Geir H. Haarde forsætisráðherra í ávarpi á aðalfundi SA í dag. "Þetta verkefni er þeim brýnna þar sem við horfum fram á að þjóðinni mun halda áfram að fjölga, gagnstætt því sem ýmsar aðrar þjóðir horfast í augu við." Geir sagði undirstöðu allra framfara vera aukna verðmætasköpun í efnahagslífinu. "Á síðustu 43 árum og fram til þessa dags hefur verðmætasköpun landsins, sjálf þjóðarkakan, nær fimmfaldast að raungildi. Á þessu ári er talið að heildarandvirði landsframleiðslunnar muni nema um 1.200 milljörðum króna en fyrir 43 árum nam landsframleiðslan 250 milljörðum króna á sambærilegu verðlagi."

Aðalfundur 2007 Geir H. Haarde

Geir benti á að þetta jafngilti því að hlutdeild hvers íbúa í þjóðarkökunni hafi þrefaldast að raungildi. "Þessi þróun endurspeglar einnig sambærilega aukningu kaupmáttar heimilanna. Þetta er ekki svo lítið sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að á þessu tímabili hefur þjóðin gengið í gegnum að minnsta kosti þrjú erfið samdráttarskeið.

Ræða Geirs H. Haarde á aðalfundi SA 17. apríl 2007 (PDF-skjal)