Hagvöxtur í boði makrílsins

Hagvöxtur var 3,7% á fyrstu níu mánuðum ársins samkvæmt tölum Hagstofunnar frá 7. desember. Þessar tölur birtust nokkrum dögum eftir að Hagstofan kynnti áætlun um 2,4% hagvöxt á árinu öllu, sem var 24. nóvember. Ætla mætti því að þessar nýju ársfjórðungstölur hefðu legið fyrir þegar áætlunin var birt og þar af leiðandi felist engar viðbótar upplýsingar í þessum nýjustu tölum. Þær hafa þó orðið einhverjum tilefni til þeirrar túlkunar um að verulegur viðsnúningur til hins betra hafi orðið í atvinnulífinu. Það er því miður ekki rétt. Hagvöxtur ársins skýrist af því að einkaneysla eykst að stórum hluta af  tímabundnum ástæðum og sérstakur búhnykkur vegna makrílveiða vegur þungt í aukningu útflutnings.

Skýring á hagvexti fyrstu níu mánaðanna liggur einkum í tvennu, þ.e. aukinni einkaneyslu og auknum útflutningi. Einkaneyslan eykst um 43 milljarða króna á þessu tímabili, eða um 7,5% að nafnvirði og 4,4% að raunvirði þegar verðbólgan hefur verið dregin frá. Að flestra mati er hér að stórum hluta um tímabundna aukningu að ræða þar sem þættir á borð við eingreiðslur kjarasamninga, útgreiðslur viðbótarlífeyrissparnaðar, sérstakar og tímabundnar vaxtaniðurgreiðslur og vaxtaendurgreiðslur Landsbankans vega þungt í aukinni kaupgetu heimilanna á árinu.  Þessi mikla neysluaukning mun því ganga til baka að hluta og hafa samsvarandi neikvæð áhrif á hagvöxt á næstunni.

Útflutningur jókst um 69 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum ársins, um 3,2% að raunvirði, og innflutningur um annað eins, eða 68 milljarða króna, um 3,6% að raunvirði, þannig að enginn bati kom frá utanríkisviðskiptunum. Af aukningu útflutningsins má rekja rúmlega 13 milljarða króna til útflutnings makríls en ef aukinna makrílveiða hefði ekki notið við hefði aukning útflutnings verið rúmlega 1% að raunvirði en ekki rúmlega 3%. Hagvöxturinn hefði orðið 2,5% en ekki 3,7%.

Tilefnislítlil gleði yfir nýbirtum ársfjórðungstölum Hagstofunnar ætti ekki að beina sjónum manna frá meginvanda íslensks þjóðarbúskapar, sem er allt of litlar fjárfestingar. Í heild námu þær 12,7% af landsframleiðslu á fyrstu níu mánuðum ársins og fjárfestingar atvinnuveganna námu 8,4% af landsframleiðslu.  Slíkt fjárfestingarstig er of lágt til að skapa varanlegan vöxt og fjölga störfum svo nokkru nemi. Fjárfestingar atvinnuveganna námu 103 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins og jukust um 15 milljarða króna frá sama tímabili 2010. Sundurliðun þessara fjárfestinga eftir atvinnugreinum liggur ekki fyrir en við blasir að stækkunin í Straumsvík og bygging Búðarhálsvirkjunar duga einar og sér til að skýra þá aukningu.

Þeir eru því á villigötum sem halda því fram að einhver uppgangur sé í fjárfestingum atvinnulífsins, enda hafa bæði kannanir SA meðal félagsmanna og Capacents fyrir SA og Seðlabankann sýnt að fjárfestingarviljinn í atvinnulífinu er afar takmarkaður og horfur ekki góðar.

Tengt efni:

Könnun Capacent meðal stærstu fyrirtækja landsins í nóvember 2011:

Stjórnendur 400 stærstu fyrirtækjanna: Aðstæður slæmar og versnandi horfur