Hagvöxtur er súrefni velferðarkerfisins

Á aðalfundi SA 2013 fjallaði Eyjólfur Árni Rafnsson, forstjóri Mannvits, meðal annars um tengslin milli trausts og fjárfestinga. Hann sagði Ísland hafa verið þekkt fyrir stöðugleika, orð hafi staðið og samningar haldið. Þetta traust hafi laskast verkulega og það þurfi að endurreisa. Eyjólfur segir spurningar erlendra fjárfesta um Ísland snúast um þetta og um áhrif og varanleika gjaldeyrishaftanna. Nauðsynlegt sé að auka fjárfestingar og að aukin velferð fylgi í kjölfar aukins hagvaxtar.

Hægt er að horfa á upptöku af erindi Eyjólfs hér, en ræðu hans má einnig lesa hér að neðan.

Eyjólfur Árni Rafnsson á aðalfundi SA 2013


"Það er ekki nýtt undir sólinni að þjóðir fari í gegn um kreppu. Dæmin er nálægt okkur, bæði landfræðilega og í tíma, og má þar m.a. nefna Svíþjóð og Finnland.

Og þegar minnst er á Finnland þá kemur í hugann Esko Aho fyrrum forsætisráðherra Finna sem var hér á Viðskiptaþingi um daginn. Hann tók við á erfiðum tímum. Hvað sagði hann.

  • Hagvöxtur neikvæður

  • Einfölduðu skattkerfið

  • Lækkuðu skatta

  • Hvöttu til fjárfestinga og juku þær um 80% á 3 árum

  • Efldu framlög til háskóla og menntunar

  • Hvöttu til nýsköpunar og frumkvöðlastarfsemi

  • Skatttekjur 3,5 földuðust

  • Hagvöxtur jákvæður á 3 árum.

Kem meira að þessu síðar.

Sá sem hér stendur er alæta á allar ritsmíðar sem lúta að stjórnmálasögu. Ég hef nýlokið við að lesa bókina Hreint út sagt, nýja ævisögu Svavars Gestssonar fyrrum ráðherra og sendiherra. Afar læsileg, upplýsandi og vel skrifuð bók þó ég geti nú ekki kvittað upp á lífsskoðanir höfundarins. Á bls. 91-92 í bókinni vitnar hann til Lúðvíks Jósepssonar og lýsir skoðunum hans á mikilvægi vinnumarkaðarins með þessum hætti:

,,Þannig hafði hann í senn lag á því að skipuleggja hina róttæku verkalýðshreyfingu og atvinnurekendur. Öll pólitík Lúðvíks á landsvísu einkenndist af því sama: Byggjum upp atvinnuvegina og þá getum við hækkað kaupið! Þegar hann komst til áhrifa varð pólitík hans þessi: Kaupum togara, byggjum upp fiskvinnsluna og færum út landhelgina og sjá: Lífskjörin batna. Og það varð svo."

Af hverju - jú það voru í framhaldinu keyptir togarar.

Þáverandi stjórnvöld hvöttu til þess og undirbjuggu jarðveginn og umgjörðina.

Á bak við þessa ákvörðun var ríkur skilningur á að verðmætasköpun og hagvöxtur væri forsenda velferðar. Það var horft fram á veginn.

Mín einfalda sýn á efnahagslífið og velferðarkerfið er hliðstæð því sem Lúðvík hafði og ég ber þetta oft saman við það sem ráðlagt er í flugi ef eitthvað gerist, þú setur súrefnið á sjálfan þig áður en þú hjálpar öðrum.

Það er staðreynd að fjárfestingar eru í dag um þriðjungi undir meðaltali síðust 15 ára, þær þarf að auka, þannig sköpum við störf.

Aukinn og viðvarandi hagvöxtur er okkar súrefni. Svo fylgir öflugt velferðarkerfi.

Undanfarin ár höfum við upplifað sífelldar breytingar á skattaumhverfi, eiginlega sama hvar borið er niður. Á sama tíma höfum við upplifað óábyrgar yfirlýsingar aðila í pólitískum áhrifastöðum, til dæmis þingmönnum, sem ekki auka trúverðugleika landsins sem fjárfestingarkosts. Óábyrgar yfirlýsingar um t.d. þjóðnýtingu fyrirtækja hafa til dæmis heyrst. Við erum alveg bærilega tengd umheiminum þannig að þetta kemst nú allt til skila, meira að segja nokkuð hratt. Þetta veldur tjóni sem ég vona að sé nú ekki ætlunin. Ef það er hinsvegar svo er slíkt grafalvarlegt.

Fyrir nokkrum árum var Ísland þekkt fyrir stöðugleika, orð stóðu og samningar héldu. Það traust og sú góða ímynd sem við höfðum hvað þetta varðar hefur laskast verkulega, því miður, og hana þarf að endurreisa. Þetta er að mínu viti mikilvægasta sameiginlega verkefni aðila vinnumarkaðarins ef auka á fjárfestingar í landinu.

Þær spurningar sem ég fæ oftast í dag frá mögulegum fjárfestum erlendis frá lúta að ofangreindu, snúast sem sagt um traust, og svo áhrifum og varanleika gjaldeyrishaftanna.

Enn og aftur, það er að mínu viti stærsta verkefni SA og hagsmunasamtaka atvinnulífsins að verja orðspor Íslands, í það eigum við að nota orkuna, og vinna að því að hægt sé að losa um gjaldeyrishöftin.

Nú er komin af stað samstarfsvettvangur atvinnulífs, stjórnsýslu og stjórnvalda undir forystu Rögnu Árnadóttur sem ég bind vonir við, hluti af því verkefni sem þar liggur fyrir er að byggja upp traust og horfa fram á veginn til að byggja enn betra Ísland. Þetta starf þarf að fá góðan bakstuðning.

Ég nefndi Esko Aho hér áður. Við vitnum oft til Norðurlandaþjóðanna. Ekki er óalgengt þegar verið er að gagnrýna þá atvinnustefnu sem á Íslandi hefur verið undanfarin 20 ár að hún sé úrelt, sagt er oft "lítið til Finnlands, þeir eru með Nokía". Við erum hér með okkar Nokía, meira að segja 2 eða fleiri, Marel, Össur og fleiri fyrirtæki, en auk þess höfum við einnig byggt upp öfluga útflutningsatvinnuvegi með því að virkja fallvötnin og jarðvarmann og selja þá orku út í formi áls og kísiljárns. Allt þetta hefur reynst okkur vel og við værum ekki í góðum málum í dag ef þetta hefði ekki verið gert. Ég get ekki tekið undir það að þessi atvinnustefna sé gamaldags eða ómöguleg. En við eigum samt að vera á tánum og horfa á aðra og nýja möguleika. Það er hinsvegar ljóst að öflug nýsköpun verður ekki til á meðan við skerum sífellt niður framlög til háskólanna og annarrar menntunar, og þá einkum til raungreina- og verkmenntunar. Við skynjum og finnum góðan stuðning til að snúa þessu við en bíðum eftir efndunum.

Niðurstaðan er þessi. Ef hlúð er að framtíðinni og fjárfest í henni þá verður hún sú framtíð sem við viljum, annars ekki.

Að lokum þetta.

Aðilar Félags ráðgjafarverkfræðinga, FRV, samþykktu nýlega einróma að ganga til liðs við SI og þjónustudeild SA. Í ljósi þess ætla ég að leyfa mér að gefa nýrri stjórn SA smá vegarnesti.

Á undanförnum árum hefur pólítísk umræða einkennst af miklum átökum. Oft á tíðum á ég fullt í fangi með að átta mig á út á hvað þessi umræða gengur, ég sé amk ekki mikla framtíðarsýn í henni. Því miður hefur mér á köflum fundist að aðilar vinnumarkaðarins og þá ekki síst SA hafi látið draga sig inn í þá flokkspólitísku umræðu sem í gangi er hverju sinni og skipa sér á bekk stjórnar/stjórnarandstöðu í stað þess að einbeita kröftum sínum að halda á lofti rökum sem snúa að hagsmunum atvinnulífsins til langs tíma. Ég veit að þetta getur verið fín lína að fara, að vera í flokkspólitík eða atvinnulífspólítík. Pólitík okkar á að snúast um hagsmuni okkar óháð hverjir stjórna landinu.

Þessi fína lína er sjálfsagt svipuð þeirri sem Jóns Hreggviðsson hafði hugsanlega í huga þegar hann var látin segja hin fleygu orð í Íslandsklukku Halldórs Laxness, "Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann?"