Hagstæðara skattaumhverfi fyrir smærri fyrirtæki

Það ætti að vera forgangsmál stjórnvalda að breyta íþyngjandi skattareglum fyrir smærri fyrirtæki. Þetta er mat Páls Jóhannessonar og Andra Gunnarssonar, lögmanna hjá Nordic Lögfræðiþjónustu. Páll og Andri fjölluðu um skattaumhverfi smærri félaga á Smáþingi sem fór nýverið fram. Þeir bentu m.a. á að breytingar á tekjuskattlögum á undanförnum árum hafi haft slæm áhrif á lítil fyrirtæki og takmarkað tekjur ríkissjóðs.

Andri og Páll bentu á að við núverandi aðstæður sé óhagstæðasta rekstarformið smærri fyrirtæki þar sem eigendur vinna sjálfir. Raunskattlagning tekna í smærri atvinnurekstri sé þannig mun hærri en skattlagning launatekna. Skattalagabreytingar eftir hrunið haustið 2008 hafi komið hvað harðast niður á litlum fyrirtækjum sem beri hærri skattbyrði en þau stærri og það sé ósanngjarnt.

Páll og Andri á Smáþingi

Þetta rýmar við nýja könnun sem gerð var fyrir SA en samkvæmt henni telja eigendur lítilla og meðalstórra fyrirtækja skattkerfið helst koma í veg fyrir vöxt fyrirtækjanna. Á sama tíma eru tækifærin mikil því lítil og meðalstór fyrirtæki telja horfur á að þau geti skapað 17.500 ný störf á næstu 3-5 árum en til að það geti orðið að veruleika þarf rekstrarumhverfi þeirra að batna.

Ein af niðurstöðum Páls og Andra er að í skattkerfið hafi verið settir óþarfa þröskuldar sem skili engu nema auknum kostnaði og minni krafti í atvinnulífinu - því þurfi að breyta. Ennfremur þurfi að auka jákvætt samstarf skattyfirvalda og fyrirtækja og hafa leikreglur skýrar.

Hægt er að horfa á erindið hér að neðan og nálgast glærurkynningu Páls og Andra frá Smáþinginu.

Sækja glærur Páls og Andra