Hætta á að flugfargjöld hækki umtalsvert

Gangi áform framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins eftir um að fella útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá flugsamgöngum undir tilskipun sambandsins, mun það hafa meiri áhrif hér á landi en annars staðar og skekkja samkeppnisstöðu íslensks efnahags- og atvinnulífs gagnvart öðrum ríkjum Evrópu. Flugfargjöld til og frá Íslandi munu hækka verulega. Samtök smærri flugfélaga í Evrópu hafa gagnrýnt harðlega að ekki hafi farið fram mat á kostnaði eða áhrifum þessara áforma. Segja samtökin að verulega verði þrengt að flugi sem samgöngukosti en tekjur ríkja vegna aukinna gjalda á flugsamgöngur eiga m.a. að renna til að bæta lestarsamgöngur og ferðir hópferðabíla. Ráðherraráðið mun ræða málið og taka til atkvæðagreiðslu þann 20. desember næstkomandi.

Forsaga málsins og staða

Í desember 2006 kynnti framkvæmdastjórn ESB áform sín um að fella útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá flugsamgöngum undir tilskipun sambandsins 2003/87/EB um að koma á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda. Með ákvörðun sameiginlegu EES - nefndarinnar nr. 146/2007 í október var umrædd tilskipun felld inn í EES samninginn með ákveðinni aðlögun. Evrópuþingið hefur nú samþykkt með nokkrum breytingum tillögur framkvæmdastjórnarinnar sem bíða umræðu Ráðherraráðsins.

 

Kostnaður aukinn verulega

Í stuttu máli  er gert ráð fyrir því að allt flug til og frá Evrópu og innan álfunnar fái úthlutað útstreymisheimildum frá 2011. Úthlutað verður 90% af meðalútstreymi áranna 2004 - 6 og þar af boðin upp 25%. Þurfi flugrekendur auknar heimildir ber þeim að afla þeirra á markaði. Auk þess er gert ráð fyrir að gjald sem flugrekendur greiða verði margfaldað með tveimur. Þær tekjur sem ríkin afla með þessu eiga að renna m.a. til að bæta lestarsamgöngur og ferðir hópferðabíla.

Upphaflegum tillögum framkvæmdastjórnarinnar (COM(2006) 818 final) fylgdi mat á áhrifum þeirra (SEC(2006) 1684) en þar má sjá að gert er ráð fyrir að flugfargjöld hækki verulega og því meir sem lengra er flogið. Þær breytingar sem Evrópuþingið hefur síðan gert hækka þennan kostnað verulega. Evrópusamtök smærri flugfélaga (ERA) hafa miklar áhyggjur af þessum áformum og hafa þau komið sjónarmiðum sínum á framfæri við samgöngu- og umhverfisráðherra landa innan Evrópusambandsins. Þau segja flugsamgöngur grundvallarþátt í efnahagslífi álfunnar og gagnrýna harðlega að ekkert mat hafi farið fram á áhrifum fyrrgreindra áforma framkvæmdastjórnarinnar og benda á að gangi þau eftir muni þau hafa alvarleg áhrif á flugsamgöngur í Evrópu. Leggja samtökin til að áður en lengra verði haldið fari slíkt mat fram þar sem lagt verði mat á efnahagsleg áhrif, áhrif á vinnumarkað, áhrif á fargjöld og áhrif á samkeppnishæfni Evrópu.

Áhrifin á Íslandi enn meiri

Lítill vafi er á því að gangi umrædd áform eftir munu þau hafa meiri áhrif hér á landi en í öðrum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu. Ráða þar bæði fjarlægðir, umfang flugrekstrar hér á landi, mikilvægi ferðaþjónustu og mikilvægi flugsamgangna fyrir alla flutninga til og frá landinu. Áhrif fyrirhugaðrar lagasetninga verða því að líkum mun meiri hér á landi en annars staðar og skekkja samkeppnisstöðu íslensks efnahags- og atvinnulífs gagnvart öðrum ríkjum Evrópu.

Mikilvægt er að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir viðræðum við fulltrúa Ráðherraráðsins og Evrópuþingsins um að fyrirhuguð áform verði ekki til að raska á þennan hátt samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs gagnvart samkeppnisaðilum í Evrópu.