Hækkun stýrivaxta ber vott um ákveðna taugaveiklun

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir í samtali við mbl.is hækkun stýrivaxta nú bera vott um ákveðna taugaveiklun hjá Seðlabanka Íslands. Aðspurður um hvort þetta hafi ekki verið viðbúið þá segir hann það svo vera miðað við hvernig bankinn hugsar. Hann telji þetta hins vegar ekki rétt viðbrögð sem skapi meiri ótrúverðugleika íslensks efnahags- og fjármálalífs. "Krónan er komin allt of lágt niður og hún mun hækka aftur og hefði gert það án þessarar vaxtahækkunar. Ég held því að þessi vaxtahækkun sé mjög misráðin," segir Vilhjálmur. Einnig var rætt við Vilhjálm um vaxtastefnu Seðlabankans í hádegisviðtalinu á Stöð 2.

Hvað varðar kjarasamninga þá segir Vilhjálmur að menn hafi verulegar áhyggjur af þessari þróun og verðbólgunni. Það sé brýnt að hún lækki. "Það skiptir miklu máli að halda sér fast og draga djúpt inn andann. Þessi sveifla niðurávið  nú er jafn vitlaus og þegar sveiflan var upp á við og gengisvísitalan fór í 100," segir Vilhjálmur og bendir á að allar sveiflur á gjaldeyrismörkuðum séu mjög slæmar fyrir íslenskt atvinnulíf en hann telji að ástandið sem nú ríkir sé ekki eitthvað sem er komið til að vera.

Vilhjálmur segir í samtali við mbl.is þá sem skulda í erlendum gjaldmiðlum - það er hafa verið að kaupa inn erlendum gjaldmiðlum og selja í krónum - hafa orðið fyrir verulegu áfalli nú. Eins hafi staðan verið erfið þegar gengið hækkaði fyrir þau fyrirtæki sem voru með kostnað í krónum en tekjur í erlendum gjaldmiðlum. Seðlabankinn sjái hins vegar aldrei neina aðra leið færa aðra en að hækka vextina.  

Nálgast má frétt mbl.is og hádegisviðtalið hér að neðan:

Frétt mbl.is

Hádegisviðtalið á Stöð 2