Hækkun launa 1. janúar 2014

Um 52% launamanna í aðildarfélögum ASÍ á almennum vinnumarkaði hækka í launum frá og með 1. janúar 2014. Hækkunin nær einungis til þeirra launamanna sem starfa samkvæmt kjarasamningum sem samþykktir hafa verið. Aðrir hækka ekki.

Upplýsingar um félög sem samþykktu kjarasamninga má sjá hér neðar og í nýrri kaupgjaldsskrá SA:

Almenn launabreyting er 2,8% en þó að lágmarki kr. 8.000 fyrir fullt starf. Kauptaxtar kjarasamninga undir kr. 230.000 hækka sérstaklega. Viðbótarhækkun taxta aðildarfélaga SGS nemur því sem svarar einum launaflokki. Því þarf atvinnurekandi eftir kr. 8.000 hækkun mánaðarlauna að kanna hvort lágmarkslaun fyrir starfið hafi hækka umfram það samkvæmt nýrri kaupgjaldsskrá SA.

Aðrir kauptaxtar kjarasamninga undir kr. 230.000, s.s. hjá afgreiðslufólki og iðnnemum, hækka sérstaklega um kr. 1.750, þ.e. samtals um kr. 9.750.

Lágmarkstekjutrygging fyrir fullt starf fyrir starfsmenn 18 ára og eldri sem starfað hafa fjóra mánuði samfellt hjá sama fyrirtæki hækkar úr kr. 204.000 í kr. 214.000. Til lágmarkstekna í þessu sambandi teljast allar greiðslur fyrir vinnu upp að 173,33 klst. á mánuði (171,15 klst. hjá afgreiðslufólki). Lágmarkstekjutrygging hefur ekki áhrif á kauptaxta starfsmanns heldur tryggir honum rétt til lágmarkstekna á mánuði. Þannig hefur lágmarkstekjutrygging almennt ekki áhrif ef starfsmaður skilar hluta af fullri vinnu á kvöldin eða um helgar, er með vaktaálag eða nýtur bónusa eða annarra aukagreiðslna. Laun fyrir vinnu umfram 173,33 (171,15) stundir á mánuði reiknast ekki með í þessu sambandi.

Sjá nánar dæmi um útreikning á vinnumarkaðsvef SA 

Stéttarfélög sem samþykktu samningana:

Félög innan Starfsgreinasambandsins:

Afl - Starfsgreinafélag Austurlands, Verkalýðsfélag Suðurlands, Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis og Verkalýðsfélag Vestfirðinga.

Félög verslunarmanna:

VR, Félag verslunar- og skrifstofufólks Akureyri, Verslunarmannafélag Skagfirðinga, Verslunarmannafélag Suðurlands og verslunarmannadeildir verkalýðsfélaganna Stéttarfélags Vesturlands (Borgarnesi), Stéttarfélagsins Samstöðu (Blönduósi) og Verkalýðsfélags Vestfirðinga.

Félög innan Samiðnar:

Byggiðn - Félag byggingamanna, Félag iðn-og tæknigreina, Félag járniðnaðarmanna, Ísafirði, Félag málmiðnaðarmanna, Akureyri, Iðnsveinafélag Húnvetninga, Iðnsveinafélag Skagafjarðar og iðnaðarmannadeildir verkalýðsfélaganna Stéttarfélags Vesturlands, Verkalýðsfélags Vestfirðinga /Sveinafélags byggingamanna og Verkalýðsfélags Þórshafnar.

Iðnaðarmannafélög:

Félag bókagerðarmanna, Félag hársnyrtisveina og Matvís - matvæla- og veitingafélag Íslands.

Stéttarfélög sem felldu samningana:

Félög innan Starfsgreinasambandsins:

Aldan stéttarfélag (Skagafirði), Báran stéttarfélag (Árnessýsla utan Ölfuss), Drífandi stéttarfélag (Vestmannaeyjum), Eining-Iðja (Akureyri), Framsýn stéttarfélag (Húsavík), Stéttarfélagið Samstaða (Blönduósi), Stéttarfélag Vesturlands (Borgarnesi), Verkalýðsfélag Akraness, Verkalýðsfélag Grindavíkur, Verkalýðsfélag Snæfellinga og Verkalýðsfélag Þórshafnar

Flóabandalagið:

Efling stéttarfélag (höfuðborgarsvæði), Verkalýðsfélagið Hlíf (Hafnarfirði) og Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis

Félög verslunarmanna:

Verslunarmannafélag Suðurnesja og verslunarmannadeildir verkalýðsfélaganna Afls-starfsgreinafélags Austurlands, Framsýnar stéttarfélags (Húsavík), Verkalýðsfélags Snæfellinga og Verkalýðsfélags Þórshafnar

Félög innan Samiðnar:

Iðnaðarmannadeildir Verkalýðsfélags Akraness og Þingiðnar (Húsavík).

Félög iðnaðarmanna

Rafiðnaðarsamband Íslands og VM - félag vélstjóra og málmtæknimanna.

Félag leiðsögumanna felldi sinn samning og Félag mjólkurfræðinga átti ekki aðild að samningunum 21.12.2013.