Hækkun framlags í Ábyrgðasjóð launa frá og með 1. janúar 2006

Ábyrgðasjóðsgjaldið var hækkað úr 0,04% í 0,10% um síðustu áramót, en gjaldið er innheimt með tryggingagjaldi. Sú hækkun kemur til vegna fjárhagsstöðu Ábyrgðasjóðs launa, en staða sjóðsins endurspeglar bæði fjölgun og stærð gjaldþrota.

Ábyrgðagjaldið

Ábyrgðargjaldið var fyrst innheimt við stofnun Ábyrgðasjóðs launa árið 1992 og var þá 0,2% og hélst það framlag til ársloka 1994. Í janúar 1995 var gjaldið lækkað í 0,16% og í 0,08% í janúar 1996. Í janúar 1998 var ábyrgðargjaldið lækkað í 0,04% og hefur sá gjaldstofn haldist fram til síðustu áramóta.

Stærri og fleiri gjaldþrot

Gjaldþrotum hefur fjölgað umtalsvert og ennfremur hafa orðið fleiri stærri gjaldþrot á síðustu árum. Sú staðreynd skýrir þá slæmu fjárhagslegu stöðu sem Ábyrgðarsjóður stendur frammi fyrir.

Gjaldþrot 2001-2005

Frá árinu 2001 hafa tekjur ekki staðið undir útgjöldum og eigið fé sjóðsins er því uppurið. Frá árinu 2003 hefur sjóðurinn verið fjármagnaður að mestum hluta með lánveitingu frá íslenska ríkinu.

Ábyrgðasjóður launa

Eins og töflurnar sýna varð mikil útgjaldaaukning og mikil fjölgun gjaldþrota árið 2002 og hefur sú staða haldist síðan. Ef litið er til einstakra starfsgreina hafa mestu útgjöldin árin 2001, 2004 og 2005 verið vegna verslunar og ýmissar viðgerðarþjónustu. Árin 2002 og 2003 voru hæstu útgjöldin vegna sérhæfðrar þjónustu, t.d. tölvu- og tæknifyrirtækja. Aðrar greinar þar sem útgjöld eru mikil eru byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, pappírs- og útgáfustarfsemi og hótel- og veitingahúsarekstur.

Ástæður útgjaldaaukningar

Ábyrgðarsjóður lét gera úttekt á ástæðum útgjaldaaukningar árið 2004. Skv. þeirri skýrslu virðast þrotabú oft koma of seint til skipta, en seinagangur í framkvæmd fjárnáma hefur þar nokkur áhrif. Brögð eru að því að fyrirtæki skipti um kennitölu og þrotabúin verði eignalaus. Einnig kemur fram í skýrslunni að allsherjarveð lánastofnana eigi líka sinn þátt í því að lítið greiðist upp í kröfur annarra kröfuhafa.

Óskað hefur verið eftir því af hálfu stjórnar Ábyrgðarsjóðsins að félagsmálaráðherra hlutist til um stofnun starfshóps með fulltrúum annarra ráðuneyta, sem fengi það hlutverk að fara yfir álitsgerðina, koma fram með viðbrögð við skýrslunni og móta afstöðu stjórnvalda til þeirra tillagna sem koma þar fram.

Vonir standa til þess að útgjaldaaukning hafi náð hámarki og gjalþrotum muni fara fækkandi. Gjaldþrot árið 2005 eru færri en árin 2003 og 2004 og virðist þróunin vera sú áfram.