Hægt að lækka matarkörfuna um 16 milljarða

Tækifærin til að auka kaupmátt 130.000 heimila eru stórkostleg. Athugun SVÞ - Samtaka verslunar og þjónustu hefur leitt í ljós að með því að draga úr innflutningshöftum og auka viðskiptafrelsi megi lækka matarútgjöld hvers íslensks heimilis um tugi þúsunda. Ef það tækist að lækka meðaltalsmatarreikning hvers heimilis um 10%  kæmu um 16 milljarðar í vasa landsmanna sem þeir gætu nýtt til að borga niður skuldir eða til kaupa á annarri vöru og þjónustu. Margrét Kristmannsdóttir, formaður SVÞ, segir það lífsnauðsynlegt fyrir heimilin í landinu að lækka matarverð og auka þannig kaupmáttinn.

Aukum kaupmáttinnSVÞ hvetja um þessar mundir landsmenn til að kjósa lægra matarverð og skora á stjórnmálaflokkana að setja aukinn kaupmátt heimilanna á dagskrá. Með einföldum breytingum á skattaumhverfi verslunar í landinu megi ná fram mikilli útgjaldalækkun fyrir heimilin. Nánari upplýsingar um átakið Aukum kaupmáttinn má lesa á vef SVÞ.

SVÞ leggja til að gamaldags tollar verði aflagðir og úrelt innflutningshöft og ósanngjörn vörugjöld verði afnumin. Samhliða verði gerðar breytingar á virðisaukaskatti sem tryggi að hægt sé að lækka vöruverð án tekjutaps hins opinbera. Einnig leggja SVÞ áherslu á að afnema innflutningshöft, m.a. á kjúklingi og svínakjöti. Með auknu frelsi í innflutningi batni hagur íslenskra heimila og verðbólga lækki.

Margrét Kristmannsdóttir, formaður SVÞ, ræddi þessi mál m.a. á aðalfundi samtakanna 2013 sem fór nýverið fram. Hún vakti m.a. athygli á því að við endurskoðun kjarasamninga í janúar sl. hefi samtökin lagt mikla áherslu á forsendur um aukinn kaupmátt í gegnum verðlækkanir, ekki síst lækkun matarverðs.

"Enda þekkir enginn betur en verslunin hvaða tækifæri við Íslendingar stöndum frammi fyrir þegar kemur að lækkun vöruverðs. Það erum jú við sem daglega kaupum inn vörur af erlendum og innlendum birgjum og þekkjum því best hvernig verðmyndunin er - hvaða álögur og gjöld eru lagðar á venjulegar neysluvörur hér á landi. Hér stöndum við frammi fyrir stórkostlegum tækifærum - í raun byltingu á mörgum sviðum.

En hér mætir okkur varnarmúr af öflugustu gerð. Varnarmúr sem þegjandi samkomulag er um að ekki megi hrófla við, varnarmúrinn um innlenda landbúnaðarframleiðslu og einokunnarsölu. Og þessi varnarmúr er svo ósvífinn að hann telur sig hafinn yfir lög og reglur - að honum komi erlendar skuldbindingar Íslendingar ekkert við - sé ríki í ríkinu - Ísland best í heimi. En þessu höfum við hjá SVÞ ekki viljað kyngja - höfum lagt til atlögu við þennan múr - og haft sigur í öllum prinsippmálum eins og þið sjáið hér:

*Álit umboðsmanns Alþingis, júlí 2010 Heimildir ráðherra til álagningar tolla á innfluttar landbúnaðarvörur stóðust ekki ákvæði stjórnarskrár.

* Dómur héraðsdóms Reykjavíkur, september 2012 Ákvörðun þáverandi landbúnaðarráðherra að breyta úr magntolli yfir í verðtoll gekk gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar.

* Bráðabirgðaákvörðun ESA, mars 2013 Bann íslenskra stjórnvalda við innflutningi á hráu kjöti stóðst ekki ákvæði EES-samningsins.

* Álit umboðsmanns Alþingis, mars 2013 Á ríkinu hvílir sú lagalega og þjóðréttarlega skylda að bjóða út tollkvóta vegna eggja, sem ríkið vanrækti að gera.

Margrét benti í ræði sinni á tvískinnung í umræðu um inn- og útfluning landbúnaðarafurða.

" ... að það sé allt í lagi að við Íslendingar flytjum út hrátt kjöt og aðrar landbúnaðarafurðir - en bregðumst við með þunga ef síðan á að flytja inn sömu vörur til landsins. Varnarmúrinn vill sem sagt setja einstefnumerki við landamæri Íslands - þar sem flæði landbúnaðarafurða er í lagi - en bara í aðra áttina ... út - en alls ekki inn. Hversu lengi höldum við Íslendingar að við komumst upp með þennan molbúahátt?"

Margrét sagði orðið tímabært að rjúfa varnarmúrinn um innlenda landbúnaðarframleiðslu og einokunarsölu.

"Við segjum stundum í gríni en með alvarlegum undirtón - að það séu 63 alþingismenn úr öllum flokkum sem slái skjaldborg um núverandi hafta- og einokunarstefnu - sem ríkt hefur áratugum saman. Og ef einhver leyfir sér að setja spurningarmerki við hagkvæmni núverandi kerfis er umsvifalaust ráðist á viðkomandi með öllum tiltækum ráðum - gott ef ásakanir um landráð fylgja ekki með þ.a. það er ekki að furða þó fáir leggi til atlögu við þennan haftamúr."

SVÞ vilja öflugan íslenskan landbúnað.

"Verslunin er ekki í stríði við íslenska bændur eins og fyrrverandi forystumenn þeirra hafa iðulega haldið fram. Þeirra málflutningur hefur verið þannig að ætla mætti að verslunin í landinu hafi það sem sérstakt keppikefli að drepa niður íslenskan landbúnað og þar með bændur? Það er auðvitað af og frá. Þvert á móti viljum við öflugan íslenskan landbúnað - en við getum ekki stutt óbreytt landbúnaðarkerfi. Enda á enginn að geta staðið vörð um kerfi sem skilar bændum sultarlaunum - skattgreiðendum og neytendum allt of háum sköttum og dýrasta landbúnaðarverði í heimi. Það er bara útkoma sem enginn á að sætta sig við, ekki síst bændur sjálfir."

Ræða formanns SVÞ - Margrét Kristmannsdóttir

Ítarlega er fjallað um aðalfund SVÞ á vef samtakanna