Hægt að auka verðmætasköpun verulega með auknu fiskeldi

Sjöfn Sigurgísladóttir, einn stofnenda Íslenskrar matorku, hélt erindi á aðalfundi SA 2012 sem fór nýverið fram. Þar sagði hún hægt að auka verðmætasköpun verulega Íslandi með auknu fiskeldi. Aðstæður hér væru um margt góðar og sérstakar. Hér væri t.d. nóg af hreinu vatni og endurnýjanlegri orku sem mætti nýta til að búa til hágæðaafurðir. Útflutningsverðmæti eldisfisks frá Íslandi nemur nú 2,7 milljörðum króna á ári. Sjöfn sagði að stefna ætti að því að auka útflutningsverðmætið í 400 milljarða á ári en til samanburðar er útflutningsverðmæti sjávarútvegsins um 250 milljarðar á ári.

Sjöfn nefndi í erindi sínu að 50% af fiski á heimsmarkaði komi úr fiskeldi en stærsti hluti þess kemur frá Asíu. Fiskeldi á Íslandi í dag nemur um 5.000 tonnum á ári en fiskeldi er 50.000 tonn á ári í Danmörku þrátt fyrir að aðstæður þar séu mun óhagstæðari en hér. Danir stefna að því að auka eldið í 120.000 tonn 2015 og fiskeldi í Noregi nemur um einni milljón tonna á ári. Með því að auka fiskeldi á Íslandi úr 5.000 tonnum í 50.000 tonn á ári mætti auka útflutningsverðmæti um 55 milljarða króna og munar um minna.

Sjöfn rifjaði upp grein Sveinbjörns Björnssonar, eðlisfræðings, í Morgunblaðinu frá 20. desember 1969. Þar hvetur hann til þess að jarðhiti verði nýttur við framleiðslu og vinnslu matvæla í stórum stíl - ylrækt gæti þannig orðið að stóriðju á Íslandi. Sjöfn tók undir þessa góðu hvatningu Sveinbjörns og sagði tímabært að láta hendur standa fram úr ermum og nýta betur kalda og heita vatnið, sjóinn og endurnýjanlega orku til framleiðslu matvæla á Íslandi.

Tengt efni:

Viðtal við Sjöfn í Reykjavík síðdegis

Tillögur SA: Uppfærum Ísland