Hægt að auka tekjur samfélagsins af ferðaþjónustu án umfangsmikilla skattahækkana

Árni Gunnarsson, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar og framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, flutti erindi á fundi SA um skattamál atvinnulífsins þann 9. nóvember. Árni benti á að ferðaþjónustan væri nú einn af þremur burðarásum í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins en greinin hafi verið veikburða fyrir aðeins fáum árum. Árni segir hægt að auka tekjur samfélagsins enn frekar af ferðaþjónustunni en það verði ekki gert á sama tíma og skattar á greinina verði hækkaðir stórlega eins og stjórnvöld hafi boðað. Greinin sé á viðkvæmu stigi og ef ekki verði hugsað vel um þennan sprota í íslensku atvinnulífi sé allt eins víst að niðursveifla og samdráttur taki við eftir góðan vöxt með tilheyrandi tekjutapi fyrir ríkissjóð.

Erindi Árna má lesa í heild hér að neðan en það var flutt á fundi SA, Ræktun eða rányrkja?, sem fram fór í Hörpu 9. nóvember sl. Glærukynningu Árna má einnig nálgast hér að neðan.

Árni Gunnarsson, formaður SAF og framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands.

"Ferðaþjónusta hefur vaxið og dafnað á undanförnum árum. Þannig er atvinnugreinin sem ekki fyrir mörgum árum síðan var veikburða hrísla í flóru íslensks atvinnulífs nú orðin ein af þremur burðarásum í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins. Ef við horfum til að byrja með eingöngu á skatttekjur hins opinbera af vöru- og þjónustu við ferðamenn að þá voru þær árið 2009 13 milljarðar skv. Hagstofu Íslands. Miðað við þá aukningu sem orðið hefur í komum erlendra ferðamanna má áætla að á árinu 2012 verði beinar skatttekjur hins opinbera af vöru- og þjónustu um 17 milljarðar króna og hafi þá aukist um 4 milljarða á einungis 4 árum án þess að skattprósenta á ferðaþjónustuna hafi verið hækkuð. Í þessu samhengi er rétt að ítreka að tekjur hins opinbera af atvinnulífinu geta aukist án þess að hækka skatthlutföll  og mun ég færa fyrir því rök hér á eftir hvernig hækkun á skattprósentu mun í raun minnka tekjur hins opinbera þegar ákveðnum mörkum er náð en ekki auka þær eins og stjórnvöld halda fram.

Árni Gunnarsson, formaður SAF.

 Hátt í 20% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar koma í gegnum ferðaþjónustu og hefur það hlutfall tvöfaldast á undanförnum 20 árum. Á síðasta ári voru heildartekjur íslensks samfélags af ferðaþjónustu um 140 milljarðar króna. Miðað við þær stórauknu tekjur sem þjóðarbúið hefur af ferðaþjónustu, tekjur sem dugmiklir aðilar í ferðaþjónustu um allt land hafa gert að veruleika var ótrúlegt að hlusta á málflutning ráðherra fjármála í september síðastliðnum tala um að ferðaþjónustan væri niðurgreiddur atvinnuvegur, gott ef ekki þurfalingur á sveit sem þyrfti að borga með. Önnur eins óvirðing við þá miklu vinnu sem liggur á bak við sköpun tekna fyrir þjóðarbúið höfum við í ferðaþjónustu aldrei mátt upplifa frá nokkrum ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Algjör vankunnátta á eðli verðmætasköpunar í greininni berskjaldaðist í málflutningnum sem dæmir sig sjálfan.

Til ferðaþjónustu telja um 9000 störf um allt land, störf sem eru fjölbreytt í eðli sínu og skapa á mörgum stöðum grunnskilyrði fyrir búsetu í sveitum landsins. Eðlilegra væri að líta á hversu mikið erlendir ferðamenn með skattgreiðslum sínum hér á landi spara íbúum landsins í fjárútlát í sameiginlega sjóði þjóðarinnar.

Ráðherra ferðamála var heldur ekki mjög málefnalegur þegar hann taldi að "ríkur ameríkani" sem gisti á Hótel Holti í júlí gæti vel borgað meira en hann gerði nú. Datt manni þá helst í hug að hér hefði gamli herstöðvarandstæðingurinn náð yfirhöndinni og þar sem ameríski herinn væri nú farinn að þá þyrfti að losna við ameríska ferðamenn líka. En að öllu gamni slepptu að þá er mikilvægt að gera sér grein fyrir því  að ferðamenn eiga valkosti, það er ekkert náttúrulögmál að hingað vilji stöðugt fleiri ferðamenn sækja landið heim. Ef verðlag á gistingu hækkar um meira en 17% eins og tillögur um hækkun virðisaukaskatts frá 7% í 25,5% mun hafa í för með sér er alveg ljóst að eftirspurn eftir þjónustu þeirra mun minnka um meira en 2% eins haldið hefur verið fram eða hversu líklegt er að gististaðaeigendur hér á landi séu að gefa frá sér 15 prósenta mögulegan tekjuauka  á hverjum degi. KPMG reiknaði áhrif hækkunar virðisaukaskatts á tekjur  samfélagsins af ferðaþjónustu, miðað við mismunandi forsendur áhrifa slíkrar hækkunar gefur KPMG sér að tekjur samfélagsins af ferðaþjónustu verði allt að 28 milljörðum lægri eftir hækkun en ella gæti orðið.

Nú þegar blómstrar svört atvinnustarfsemi í ferðaþjónustu sem aldrei fyrr, fleiri hundruð íbúða og herbergja eru til leigu þar sem engin virðisaukaskattur er greiddur, ekkert gistináttagjald er greitt, ekkert tryggingargjald er greitt af launþegum og líklegt er að starfmenn slíkrar starfsemi þiggi atvinnuleysisbætur á sama tíma. Hér eru tækifæri hins opinbera, með því að koma böndum yfir þessa starfsemi er hægt að auka tekjur ríkisins um mörg hundruð milljónir auk þess sem hér er um mikilvægt öryggis- og samkeppnismál að ræða.

Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er gert ráð fyrir að vörugjöld á bílaleigubíla hækki umtalsvert og telja höfundar frumvarpsins að með slíkri hækkun megi ná fram 500 milljón króna tekjuauka fyrir ríkissjóð. Hér er enn og aftur ekki horft á heildarmyndina heldur er gengið út frá því að slík hækkun hafi ekki áhrif á starfsemi bílaleiga. Þegar hinsvegar horft er til afleiddra áhrifa af slíkri hækkun að þá mun með upptöku kílómetragjalds og minni endurnýjun bílaflotans tekjur ríkissjóðs af seldum bílum, bensíngjaldi og virðisaukaskatti af útleigu, en rétt er að taka fram að bílaleiga ber 25,5% virðisaukaskatt, að þá munu skatttekjur ríkissjóðs af þessari atvinnugrein, samkvæmt útreikningi KPMG, ekki aukast um 500 milljónir heldur þvert á móti minnka um tæplega 400 milljónir.

Smelltu til að stækka!

Stöðugleiki er mikilvægur fyrir flestar atvinnugreinar. Skattabreytingar með stuttum fyrirvara eru eitur í beinum ferðaþjónustunnar, ekki bara vegna þess að fjárfestingar í greininni eru í uppnámi þegar slíkum breytingum er skellt á heldur einnig eru samningar um verð gerðir langt fram í tímann. Ekki er óeðlilegt að gera kröfum um 2 ára aðlögunartíma fyrir allar breytingar á skattaumhverfi greinarinnar.

Ef menn efast enn um neikvæð áhrif aukinnar skattheimtu á ferðaþjónustu þá stendur mér nærri að benda á reynsluna af innanlandsfluginu. Á undanförnum 3 árum hafa sértæk gjöld og skattar á innanlandsflug tvöfaldast. Árið 2009 greiddi Flugfélag Íslands tæplega 200 milljónir í slík gjöld en á þessu ári er áætlað að skattheimtan verði yfir 400 milljónir króna. Á síðastliðnu ári leit út fyrir að fjöldi farþega í innanlandsflugi væri að komast á rétt ról eftir hrun og fjölgaði farþegum þá um 3%. Á fyrstu mánuðum þessa árs hélt fjölgunin áfram og náði þá um 5%. Hinn fyrsta apríl síðastliðinn hækkuðu hinsvegar farþega- og lendingargjöld á Reykjavíkurflugvelli um meira en 70%, jafnframt hækkuðu flugleiðsögugjöld um 22%. Um leið og þessar hækkanir fóru út í verðlagið snerist sú jákvæða þróun sem hófst í lok síðasta árs við og hefur farþegum fækkað um 5% frá því að þessar hækkanir komu á. Í samgönguáætlun er gert ráð fyrir að farþegagjald á innanlandsflugið hækki á næsta ári um 150 milljónir króna og í fjárlögum fyrir næsta ár er gert ráð fyrir samdrætti á framlögum til reksturs flugvallarkerfisins uppá rúmlega 90 milljónir króna. Ef staðið verður við þessar áætlanir er ljóst að innanlandsflugið mun breytast verulega frá því sem nú er, viðvarandi fækkun farþega vegna hærri gjalda og minni þjónustu mun verða að veruleika og hlutverk innanlandsflugsins í almenningssamgöngum verða hverfandi.

Til áminningar er Laffer kúrvan hér er dregin upp en hún sýnir að með offari í hækkun skattprósenta munu tekjur ríkissjóðs ekki aukast heldur minnka. Tekjur ríkissjóðs hafa í núverandi skattaumhverfi aukist verulega en með þeim fyrirætlunum sem nú liggja fyrir hefur verið sýnt fram á með vönduðum vinnubrögðum og ítarlegum útreikningum að þeir muni ekki skila ríkinu auknum tekjum.  Það er því ekki síst með hagsmuni ríkissjóðs sem við í ferðaþjónustunni hvetjum stjórnvöld til að endurskoða þessar fyrirætlanir sínar og taka mark á þeim hættumerkjum sem eru á lofti.

Smelltu til að stækka!

Ræktunin sem á undanförnum árum hefur átt sér stað í ferðaþjónustu er vísir af því hvað hægt er að gera ef vel er haldið á spilum. Stofninn er að styrkjast en er enn á viðkvæmu þroskaskeiði, ef við hlúum ekki vel að þessum sprota er allt eins víst að blöðin falli hratt og við munum sjá niðursveiflu og samdrátt.

Það eru tækifæri til að auka tekjur samfélagsins af ferðaþjónustu en það gerist ekki með þessum hætti."

Tengt efni:

Glærukynning Árna (Adobe-Flash Player þarf til að opna)

Sjónvarpsfrétt RÚV 9.11. - smelltu til að horfa