Hægist um á byggingamarkaði

Upplýsingar Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins frá aðilum á byggingamarkaði benda til þess að að verktakar muni draga úr framkvæmdum við íbúðabyggingar á næsta ári. Þetta er í mótsögn við spá Seðlabankans sem sett var fram í nýjasta tölublaði Peningamála en þar er því spáð að eftir metumsvif á þessu ári og 14,9% aukningu frá síðasta ári vaxi fjárfesting í íbúðarhúsnæði enn um 3,8% á næsta ári. Minnkandi eftirspurn er ástæða þess að aðilar á byggingamarkaði hyggjast draga úr framkvæmdum en það kemur í veg fyrir offramboð á íbúðarhúsnæði og dregur úr hættu á verðhruni á fasteignum. Útlit er því fyrir að markaðurinn leiti jafnvægis.

Draga úr framkvæmdum

Í viðtölum við aðila á byggingamarkaði koma fram sterkar vísbendingar um að byggingamarkaðurinn á Íslandi sé farinn að róast en hann hefur verið yfirspenntur síðustu tvö til þrjú árin. Fyrirtæki bregðast nú við minnkandi eftirspurn eftir húsnæði með því að draga úr framkvæmdum á næstu mánuðum. Með hliðsjón af miklu framboði á markaðnum hyggjast sum fyrirtæki bíða með byggingu húsa sem þau hafa þegar fengið leyfi fyrir og draga úr framkvæmdahraða. Utan höfuðborgarsvæðisins hafa fyrirtæki einnig haldið að sér höndum og stöðvað fyrirhugaðar íbúðabyggingar þrátt fyrir að eiga tilbúnar teikningar og lóðir fyrir mörg hundruð íbúðir.

Upplýsingar frá byggingarfulltrúum sveitarfélaga staðfesta hvert stefnir. Þeir greina minni spennu á markaðnum en var fyrir ári síðan og segja algengt að lóðarhafar hefji ekki framkvæmdir þrátt fyrir að vera með byggingaleyfi.

Undarleg rök Seðlabankans

Í þessu ljósi verður það að teljast undrunarefni að Seðlabankinn rökstyðji nýjustu hækkun stýrivaxta, frá og með 11. júlí í 13%, meðal annars með því að þensla í íbúðabyggingum haldi áfram og að framkvæmdir verði ennþá meiri árið 2007 en 2006. Gengi sú spá bankans eftir yrði hér offramboð á fasteignum og hætta á verðhruni á húsnæði með ófyrirséðum afleiðingum. Viðbrögð aðila á byggingamarkaði sem hyggjast nú hægja á framkvæmdum á næstu mánuðum stuðla hins vegar að jafnvægi á fasteignamarkaði.