Grímur Sæmundsen ræddi um sóknarfæri í ferðaþjónustu á aðalfundi SA

Það er einstakt tækifæri sem felst í að efla íslenska ferðaþjónustu, auka hagvöxt og koma þar með Íslandi af stað. Þetta sagði Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins og varaformaður SA á aðalfundi samtakanna í dag. Grímur benti á að íslensk ferðaþjónusta skapaði 20% gjaldeyristekna þjóðarbúsins á síðasta ári. Til samanburðar skapaði sala stóriðjuafurða 24% og sala sjávarafurða 27% gjaldeyristeknanna. Árið 2009 var stærsta tekjuár atvinnugreinarinnar frá upphafi  og gjaldeyristekjur hennar námu eitt hundrað fimmtíu og fimm milljörðum króna. Var um 21% raunaukningu að ræða frá árinu 2008.

Á aðalfundi SA ræddi Grímur um hvernig hægt er að koma Íslandi af stað. Erindi hans má lesa í heild hér að neðan:

Fundarstjóri, ágætu félagar í Samtökum atvinnulífsins, aðrir góðir gestir.

Ég ætla að nota það tækifæri, sem mér gefst hér í dag, til að ræða við ykkur um íslenska ferðaþjónustu og það einstaka tækifæri, sem gefst með eflingu hennar til að auka hagvöxt og koma ÍSLANDI AF STAÐ.

TÖLULEGAR STAÐREYNDIR

Ferðaþjónusta hefur á síðustu misserum stigið fram sem lykilatvinnugrein í þjóðlífi okkar.

Því til staðfestingar ætla ég að deila með ykkur nokkrum tölulegum staðreyndum:

Árið 2009 skapaði íslensk ferðaþjónusta 20% gjaldeyristekna þjóðarbúsins. Til samanburðar skapaði sala stóriðjuafurða  24% og sala sjávarafurða 27% gjaldeyristeknanna.

Ferðaþjónustan er  11,5% landsframleiðslunnar, þegar innlend ferðaþjónusta er meðtalin,  og Ísland er nú mesta ferðaþjónustuland Norðurlandanna, bæði með tilliti til hlutdeildar hennar í landsframleiðslu og sköpun gjaldeyristekna.

Ferðaþjónustan veitir nú  um  6 % launþega í landinu atvinnu samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar, miðað við þrönga skilgreiningu stofnunarinnar að mínu mati.

Árið 2009 var stærsta tekjuár  atvinnugreinarinnar frá upphafi,  og gjaldeyristekjur hennar eitt hundrað fimmtíu og fimm milljarðar króna. Var um 21% raunaukningu að ræða frá árinu 2008.

Væntingar eru um, að árið í ár verði ennþá stærra hvað varðar gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu.

FERÐAÞJÓNUSTAN OG AÐRAR ATVINNUGREINAR

Ferðaþjónusta er ung atvinnugrein á Íslandi, og hefur ef til vill þess vegna ekki notið þeirrar athygli, sem henni bæri.  Þetta  er þó sem betur fer að breytast í ljósi mikils vaxtar greinarinnar á undanförnum árum. Ferðaþjónusta er nú orðin burðarás í atvinnulífi landsmanna og  stjórnvöld og aðrir aðilar í samfélaginu eru nú að átta sig á þeirri staðreynd.

Ekki eru samt allir búnir að ná áttum, eins og þau tvö dæmi lýsa, sem ég ætla nú að nefna.

Í fyrsta lagi vil ég nefna að skv. nýjum upplýsingum frá Alþingi naut ferðaþjónustan einungis 0,5% af þeim opinberu rannsóknastyrkjum, sem veittir voru til atvinnuveganna árið 2007. Þetta er að sjálfsögðu óásættanlegt. Það þarf að stórauka rannsóknir í ferðaþjónustu sérstaklega markaðsrannsóknir, sem eru ein meginforsenda eflingar ferðaþjónustunnar, eins og ég mun síðar víkja að.

Í öðru lagi vil ég nefna, að nú er unnið að  rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafl og jarðhitasvæði.

Íslensk náttúra og ósnortin víðerni hennar eru þeir grunnþættir, sem draga 70% erlendra ferðamanna til Íslands. Með einföldum hætti má því segja, að 110 milljarðar króna af þessum 155, sem ferðaþjónustan aflaði á síðasta ári, séu með beinum hætti tilkomnir vegna þess aðdráttarafls, sem ósnortin íslensk náttúra hefur.

Í þessu samhengi verður mat á sumum virkjanakostum, sem nefndir eru í fyrrgreindri rammaáætlun, eins og t.d. virkjanir á Kili, að Fjallabaki eða norðan Vatnajökuls einungis fræðilegar vangaveltur að mínu mati.

Samtök ferðaþjónustunnar munu  standa vörð um meginaflvaka greinarinnar -  sem er ósnortin íslensk náttúra.

En hagsmunir grænnar orkuvinnslu og ferðaþjónustu geta vel farið saman, og þar er auðvitað Bláa Lónið besta dæmið.

Mjög brýnt er, að nú þegar verði hafist handa við að vinna landnýtingaráætlun út frá forsendum ferðaþjónustunnar með sama hætti, og nú er verið að leggja lokahönd á, hvað varðar virkjanakosti.

VAXTARMÖGULEIKAR ÍSLENSKRAR FERÐAÞJÓNUSTU

Árið 2002 komu 278.000 erlendir ferðamenn til Íslands, sem gistu eina nótt á landinu eða lengur.

Á síðasta ári voru þessir ferðamenn 494.000 talsins. Þar að auki komu um 69.000 ferðamenn með skemmtiferðaskipum til landsins síðastliðið sumar. Erlendir ferðamenn voru því alls 563.000 talsins árið 2009.

Vöxtur í heimsóknum erlendra gesta okkar  var  alls 78% frá árinu 2002 til 2009 eða að jafnaði 7,5% á ári. Ef við horfum til sambærilegs vaxtar næstu 7 ár, þá værum við að taka á móti 880 þúsund erlendum ferðamönnum árið 2016.

Hafið í huga að þeir 50.000 bresku ferðamenn,  sem sóttu Ísland heim á síðasta ári, eru 0,1% þess hóps Breta, sem ferðuðust til útlanda í fyrra. Sömu sögu er að segja af öðrum okkar helstu markaðssvæða.

Við erum aðeins að fá örlitla sneið af kökunni, sem undirstrikar, hvað miklir möguleikar felast í því, að stækka hana - þó ekki væri nema örlítið.

Meðaltekjur okkar á hvern erlendan ferðamann voru rúmlega 300 þúsund krónur í fyrra. Ef við næðum að halda þeim meðaltekjum, og erlendum ferðamönnum fjölgaði á næstu 7 árum með þeim hætti, sem áður er lýst, mundu gjaldeyristekjur ferðaþjónustunnar verða um 265 milljarðar króna árið 2016.

FINNSKA LEIÐIN

En engin er rós án þyrna.

Hvernig í ósköpunum eigum við að taka á móti 880 þúsund ferðamönnum árið 2016 hafandi í huga, að ýmsir innviðir eru nú þegar við það að bresta  á mesta annatíma ferðaþjónustunnar í júlí og ágúst.

Jú - með því að fjárfesta með markvissum hætti í þróun og markaðssetningu ferðamennsku utan háannatíma - byggja upp vetrarferðamennsku á Íslandi og nýta þannig betur þá innviði sem við höfum - í gistirými og afþreyingarmöguleikum.  Fara  finnsku leiðina.

Í kreppunni, sem brast á í Finnlandi árið 1991, tóku finnsk yfirvöld og forystuaðilar í finnskri ferðaþjónustu saman höndum og framkvæmdu einmitt þetta. Á næstu 10 árum tókst þessum aðilum að auka svo tekjur af vetrarferðamennsku með öflugri vöruþróun og markaðsstarfi, að nú er svo komið, að tekjur finnskrar ferðaþjónustu eru meiri af vetrarferðamennsku en ferðaþjónustu á hefðbundnum sumartíma.

Eins og mörg ykkar eflaust vita, býr jólasveinninn nú í Rovaniemi í Finnlandi.

Í þessu efni felast mörg tækifæri fyrir  okkur hér uppi á Íslandi  t.d. í heilsutengdri ferðaþjónustu, menningartengdri ferðaþjónustu og ráðstefnuhaldi, auk þess að kynna okkar einstöku náttúru í vetrarbúningi.

Stórskáldið Einar Benediktsson hafði rétt fyrir sér. Norðurljósin eru verðmæt söluvara.

Þá má ekki gleyma, að vetrarferðamennskan mun sérstaklega kalla á þjónustu- og innviðaþróun á landsbyggðinni og verða til að efla landsbyggðina.

Við stjórnun þessa næsta vaxtarskeiðs íslenskrar ferðaþjónustu verður að leggja megináherslu á gæði, öryggi og einnig á það, að auka tekjur af hverjum þeim erlenda gesti , sem heimsækir Ísland, þannig að meðalárstekjurnar á hvern gest verði ekki rúmlega 300 þúsund eins og s.l. ár -  heldur 30-40% hærri þ.e. um  400 til 450.000 krónur  á gest, sem mundi þá auka væntar gjaldeyristekjur ferðaþjónustunnar  úr 265 milljörðum króna í 390 milljarða króna árið 2016.

Hér væri þá um að ræða 150% aukningu gjaldeyristekna þjóðarbúsins af ferðaþjónustu frá árinu 2009 til ársins 2016.

Þetta er fyllilega raunhæft markmið að mínu mati, sérstaklega þegar sú staðreynd er höfð í huga, að gjaldeyristekjur okkar af ferðaþjónustu jukust um 233% frá árinu 2001 til 2009.

MIKILVÆGI MARKAÐSSTARFS

En vöxtur í heimsóknum erlendra ferðamanna til Íslands á undanförnum árum varð ekki til af sjálfu sér, og mögulegur vöxtur á næstu árum mun heldur ekki verða til af sjálfu sér.

Alþingi hefur nú til lokaafgreiðslu frumvarp um Íslandsstofu. Íslandsstofa á með fjölþættum hætti að stýra kynningarmálum landsins gagnvart umheiminum.

Íslandsstofa mun ásamt Samtökum ferðaþjónustunnar og öflugum einkaaðilum í greininni leika lykilhlutverk í því metnaðarfulla verkefni, sem ég hef hér fjallað um - þ.e. að halda áfram að fjölga komum erlendra ferðamanna til Íslands sérstaklega utan háannar, og auka tekjur af hverjum þeirra.

Ég hvet því alla þingmenn til þess að tryggja framgang áðurnefnds frumvarps um Íslandsstofu nú fyrir þinglok.

Starfið er margt og við megum engan tíma missa til að koma mikilvægri undirbúningsvinnu í vöruþróun og markaðsrannsóknum ferðaþjónustunnar áfram af meiri krafti en nokkru sinni fyrr, og það verður ekki gert með því að láta ferðaþjónustuna hafa 0,5% rannsóknarstyrkjanna.

Síðustu daga höfum við fengið stuðning úr óvæntri átt í kynningarstarfinu. Við höfum fylgst með stærstu  alþjóðlegu landkynningarherferð, sem fram hefur farið á síðari tímum,  þar sem íslensk náttúruöfl hafa kynnt Ísland sem land elds og ísa.  Ísland - eldfjallaeyjan.

Þetta er þó tvíeggjað sverð, eins og við vitum, og það er stutt á milli jákvæðrar ímyndar dularfullrar eldfjallaeyju og neikvæðrar ímyndar hamfaraeyju, sem er svo gott sem óbyggileg vegna gosösku, er einnig ógnar daglegu lífi í Evrópu og jafnvel um allan heim.

Því er gríðarlega mikilvægt að sveifla þessu sverði varlega, þannig að rétt egg bíti. Í þessu samhengi get ég ekki annað en líst vonbrigðum mínum með, að Forseti Íslnds skuli hafa ákveðið að beita röngu egginni með ummælum sínum í fréttaþætti BBC síðastliðið mánudagskvöld.

Sérstakur verkefnishópur hefur unnið að því undanfarna daga að tryggja, að umfjöllun um Ísland sé eins jákvæð og unnt hefur verið miðað við aðstæður og undirstrika, að áfram sé öruggt að heimsækja okkar harðbýla land. Þessi hópur hefur unnið gott starf og fyrirhugað er, að fara í markaðsherferð í beinu framhaldi af þeirri gríðarlegu umfjöllun, sem Ísland hefur notið um allan heim nú að undanförnu og verður vart metin til fjár.

Ísland er ekki bara eldfjallaeyjan. Ísland er líka sögueyjan og Ísland er einnig heilsulandið.

Í mínum huga hefur Ísland aldrei verið meira spennandi.

Kjarni máls er eftirfarandi:

Við okkur blasa gríðarleg tækifæri til að koma ÍSLANDI AF STAÐ - SKAPA ATVINNU FYRIR ALLA með því efla íslenska ferðaþjónustu á næstu misserum, og  auka enn frekar sókn út á hin kvótalausu mið erlendra ferðamanna.

Valið er okkar.

Grímur Sæmundsen