Efnahagsmál - 

28. Janúar 2009

Góð starfsskilyrði atvinnulífs verði tryggð

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Góð starfsskilyrði atvinnulífs verði tryggð

Góð starfsskilyrði skipta atvinnulífið mestu máli óháð því hverjir eða hvaða stjórnmálaflokkar sitja í ríkisstjórn. Þetta segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, sem segir miklu máli skipta að koma hér á varanlegum stöðugleika fyrir rekstur fyrirtækja og heimila. Rætt var við Vilhjálm á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun ásamt Ingibjörgu R. Guðmundsdóttur, varaforseta ASÍ, um aðgerðir til að bjarga hag heimila og fyrirtækja. Aðspurður sagði Vilhjálmur hækkandi matvælaverð eina birtingarmynd af því hvernig lækkun á gengi krónunnar hafi reytt af okkur lífskjörin.

Góð starfsskilyrði skipta atvinnulífið mestu máli óháð því hverjir eða hvaða stjórnmálaflokkar sitja í ríkisstjórn. Þetta segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, sem segir miklu máli skipta að koma hér á varanlegum stöðugleika fyrir rekstur fyrirtækja og heimila. Rætt var við Vilhjálm á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun ásamt Ingibjörgu R. Guðmundsdóttur, varaforseta ASÍ, um aðgerðir til að bjarga hag heimila og fyrirtækja. Aðspurður sagði Vilhjálmur hækkandi matvælaverð eina birtingarmynd af því hvernig lækkun á gengi krónunnar hafi reytt af okkur lífskjörin.

Háir vextir, gjaldeyrishöft og ófullnægjandi bankaþjónusta háir atvinnulífinu verulega um þessar mundir. Auk þess hefur samdráttur í eftirspurn komið niður á veltu margra fyrirtækja sem hafa fyrir vikið þurft að taka til í rekstri og jafnvel neyðst til að segja upp fólki, bjóða upp á hlutastörf eða lækka laun.

"Þetta er ekki æskilegt ástand fyrir atvinnulífið," segir Vilhjálmur og undirstrikar að sú leið sem farin var með bankana síðastliðið haust hafi verið röng og ofan af henni verði að vinda sem fyrst.

Þá ítrekar Vilhjálmur að ekki hafi verið hægt fyrir Ísland að komast hjá því að fá aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins - sjóðurinn hafi skapað landinu nauðsynlegt fjárhagslegt öryggi. Hins vegar hafi ekki tekist nógu vel til í samningaviðræðum við sjóðinn um aðgerðir til að bregðast við ástandinu -  þar hafi mátt gera betur.

Smellið hér til að hlusta á Morgunvaktina á Rás 1

Samtök atvinnulífsins