Góð staða atvinnulífs en óviss framtíð

Nú liggja fyrir niðurstöður úr ársfjórðungslegri könnun Capacent Gallup á stöðu og framtíðarhorfum hjá 400 stærstu fyrirtækjum landsins. Tæplega þrír fjórðu stjórnenda telja að núverandi aðstæður í efnahagslífinu séu góðar. Er þetta ívið betri niðurstaða en í samsvarandi könnun í september. Óvissa um efnahagshorfur sex mánuði fram í tímann fer vaxandi. Umframeftirspurn eftir starfsfólki virðist fara minnkandi og vöxtur innlendrar eftirspurnar dregst saman. Bjartsýni ríkir um eftirspurn á erlendum mörkuðum. Þróun EBITDA-framlegðar fyrirtækja hefur verið hagstæð. Fyrirtæki spá að meðaltali 2,2% verðbólgu næstu 12 mánuði.

Aðstæður í efnahagslífinu

Um 74% svarenda telja núverandi aðstæður í efnahagslífinu góðar, aðeins um 3% telja þær slæmar en um 23% álíta þær hvorki góðar né slæmar. Lítill munur kemur fram eftir atvinnugreinum, en aðstæður eru þó taldar bestar í fjármála- og tryggingastarfsemi og byggingarstarfsemi en lakari í samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu.

Þegar litið er hálft ár fram í tímann eru efnahagshorfur hins vegar lakari. Telja um 24% stjórnenda að aðstæður verði þá verri, um 19% búast við betri stöðu en 57% vænta óbreytts ástands. Lítill munur kemur fram á efnahagshorfum eftir atvinnugreinum en þó hvað lakastar í fjármála- og tryggingastarfsemi.

Draga má saman niðurstöður úr könnuninni í vísitölu efnahagslífsins[1], sem sýnir samandregið mat fyrirtækja á núverandi efnahagsástandi og horfum eftir sex mánuði. Til samanburðar eru á eftirfarandi mynd sýndar niðurstöður um sama efni úr fyrri könnunum. Lægsta gildi vísitölunnar er 0, þegar allir telja aðstæður verri en hæst 200, þegar allir telja þær betri. Jafnvægi er við gildið 100, þegar jafn margir telja aðstæður betri og þeir sem telja þær verri.

Eins og sjá má eru núverandi aðstæður í efnahagslífinu hagstæðar og betri en fram kom í sambærilegum könnunum fyrr á árinu. Efnahagshorfur þegar litið er hálft ár fram í tímann eru hins vegar lakari og verri en fram kom í könnun í september. Þótt núverandi aðstæður í efnahagslífinu séu hagstæðar gætir mun meiri óvissu um framtíðarhorfur en á árunum 2003-2004.

Vísitala efnahagslífsins

Vísitala efnahagslífsins

Smellið til að sjá stærri mynd

Staða og horfur á vinnumarkaði

Könnunin gefur til kynna að spenna á vinnumarkaði fari heldur minnkandi. Um 61% fyrirtækja sem svöruðu könnuninni telja sig nú hafa nægjanlegt framboð starfsfólks en skortur er á starfsfólki hjá um 39% fyrirtækja. Í könnunum fyrr á árinu var skortur á starfsfólki hjá um og yfir helmingi þátttakenda. Skortur á starfsfólki er mestur í ýmissi sérhæfðri þjónustu og er meiri á höfuðborgarsvæðinu en utan þess.

Skortur á starfsfólki eftir landssvæðum og atvinnugreinum   

Skortur á starfsfólki

Smellið til að sjá stærri mynd

Um 41% fyrirtækja búast við að starfsmönnum fjölgi á næstu sex mánuðum, um 11% búast við fækkun en um 48% búast ekki við breytingu. Í þessu felast ívið minni væntingar um fjölgun starfsmanna á næstu sex mánuðum en kannanir fyrr á árinu hafa sýnt. Fjölgunar er einkum vænst í ýmissi sérhæfðri þjónustu, fjármála- og tryggingastarfsemi, verslun og samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu , en meira jafnvægi er í öðrum atvinnugreinum.

Innlend eftirspurn næstu sex mánuði

Fremur jákvæð viðhorf koma fram um þróun innlendrar eftirspurnar næstu sex mánuði. Telja um 37% fyrirtækja í könnuninni að hún muni aukast, um 10% búast við samdrætti og um 53% búast við svipaðir eftirspurn. Eftirfarandi mynd sýnir hvernig væntingar fyrirtækja í könnuninni hafa þróast undanfarin þrjú ár. Í kjölfar óróa í efnahagslífinu vorið 2006 dró mjög úr bjartsýni, sbr. niðurstaða í maí 2006. Að öðru leyti endurspeglar myndin að allt þetta tímabil hefur ríkt bjartsýni um þróun innlendrar eftirspurnar sem þó hefur heldur dregið úr á þessu ári.

Áætlun um innlenda eftirspurn næstu sex mánuði

Áætlun um innlenda eftirspurn

Smellið til að sjá stærri mynd

Væntingar um samdrátt í innlendri eftirspurn næstu sex mánuði koma einkum fram í verslun, byggingastarfsemi, sjávarútvegi, iðnaði og fjármála- og tryggingastarfsemi, en í öllum tilvikum vegur áætluð aukning þó jafn þungt eða þyngra. Í samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu sem og ýmissi sérhæfðri þjónustu er ekki vænst samdráttar í innlendri eftirspurn heldur ýmist óbreytts ástands eða aukningar.

Erlend eftirspurn næstu sex mánuði

Horfur um eftirspurn í útflutningsstarfsemi eru mjög jákvæðar. Um 72% fyrirtækja sem svöruðu spurningu um erlenda eftirspurn telja að hún muni aukast á næstu sex mánuðum, um 25% búast við óbreyttu ástandi en aðeins 3% vænta samdráttar.

Áætlun um erlenda eftirspurn næstu sex mánuði

  Áætlun um erlenda eftirspurn

Smellið til að sjá stærri mynd

Þessi sama mynd um þróun erlendrar eftirspurnar næstu sex mánuði endurspeglast með mjög svipuðum hætti bæði í sjávarútvegi og iðnaði. Í fjármálastarfsemi, samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu búast um 43-47% fyrirtækja við aukinni erlendri eftirspurn.

EBITDA-framlegð

Í könnuninni er spurt um breytingar á EBITDA-framlegð (þ.e. hagnaði fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir) undanfarna sex mánuði og líklegar breytingar næstu sex mánuði. Í heild er niðurstaðan jákvæð og telja um 56% fyrirtækjanna að framlegð hafi aukist, 15% að hún hafi dregist saman, en staðan var óbreytt hjá um 29% þátttakenda.

Þegar litið er sex mánuði fram í tímann gerir um 49% svarenda ráð fyrir að framlegð muni aukast, um 40% að hún standi í stað og um 11% að hún minnki. Horfurnar eru þó breytilegar eftir atvinnugreinum og lakastar í byggingastarfsemi og framleiðsluiðnaði, eins og eftirfarandi mynd sýnir:

Horfur um breytingar á EBITDA-framlegð næstu sex mánuði

Horfur um breytingar á EBITDA-framlegð

Smellið til að sjá stærri mynd

Verðbólguspá

Fyrirtæki í könnuninni voru beðin að spá fyrir um hækkun vísitölu neysluverðs, og er niðurstaðan sú að þau spá að meðaltali 2,2% verðbólgu næstu 12 mánuði. Engin hækkun hefur orðið á vísitölu neysluverðs frá því í september. Í þessu felst því spá um að 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans verði náð næsta haust.

Um könnunina

Samtök atvinnulífsins hafa samstarf við fjármálaráðuneytið og Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Framkvæmd könnunarinnar er í höndum Capacent Gallup. Könnunin er gerð ársfjórðungslega. Einföld könnun með um 10 spurningum er gerð í annað hvort skipti, en hin skiptin er gerð ítarleg könnun með um 30 spurningum.

Að þessu sinni var könnunin gerð á tímabilinu 15. nóvember til 15. desember 2006 og með einfaldara sniði með 9 spurningum. Í upphaflegu úrtaki voru 400 stærstu fyrirtæki landsins miðað við heildarlaun, en í endanlegu úrtaki voru 388 fyrirtæki. Svarhlutfall var 62,1%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu, atvinnugrein, veltu og starfsmannafjölda. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðila að könnuninni á niðurstöðum hennar.


[1] Vísitalan er reiknuð þannig: [(# betri / (# betri + # verri)) * 200], þar sem # = fjöldi fyrirtækja.