Góð reynsla af erlendu starfsfólki

Um níu af hverjum tíu fyrirtækjum í Danmörku sem hafa ráðið til sín erlent starfsfólk segja reynsluna af því vera jákvæða og hyggjast halda því áfram. Aðeins tvö prósent fyrirtækja telja reynslu af ráðningu erlends starfsfólks vera neikvæða. Þetta kemur fram í nýlegri könnun DI, dönsku samtaka iðnaðarins, meðal rúmlega 600 danskra fyrirtækja. Mikill skortur er á starfsfólki í Danmörku og hyggjast um 40% danskra fyrirtækja bregðast við með því að ráða til sín erlent starfsfólk.

Smærri fyrirtæki leita út

Fjallað er um stöðuna á dönskum vinnumarkaði í riti DI,  DI Insight, sem kom út á dögunum. Flest fyrirtæki finna fyrir því að starfsfólk skorti og hyggjast um 40% danskra fyrirtækja bregðast við með því ráða til sín erlent starfsfólk á næstu tveimur árum. Sérfræðingar DI telja að dönsk fyrirtæki hafi orðið af 27 milljörðum danskra króna í tekjur síðasta árið vegna þess að þau hafi ekki getað uppfyllt allar þær pantanir sem þeim bárust. Ljóst sé að Danir verði að fjölga fólki á vinnumarkaði til að viðhalda hagsæld í landinu en í ljósi jákvæðrar reynslu Dana af erlendu starfsfólki hefur áhugi þeirra á að ráða útlendinga í vinnu vaxið. Áberandi er að smærri fyrirtæki hyggjast nú í auknum mæli leita eftir starfsfólki utan Danmerkur.

Sjá nánar DI Insight, 15. tbl., 2006 (PDF-skjal).