Global Compact gagnast ábyrgum fyrirtækjum vel

Samtök atvinnulífsins efndu á dögunum til fundar um Global Compact og samfélagsábyrgð fyrirtækja í samstarfi við Festu - miðstöð um samfélagsábyrgð. Global Compact er sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð en Samtök atvinnulífsins eru tengiliður á Íslandi við Global Compact. Á fundinum lýstu stjórnendur frá Össuri, Odda og ÁTVR reynslu sinni af því að skrifa undir sáttmálann en í máli þeirra kom fram að Global Compact væri hentugt verkfæri fyrir fyrirtæki til að vinna með samfélagsábyrgð.

Mikill áhugi var á fundinum sem var vel sóttur. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA setti fundinn en Sigurborg Arnarsdóttir, fjárfestatengill hjá Össuri, Stefán Hjaltalín, sölustjóri hjá Prentsmiðjunni Odda og Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR sögðu frá því hvers vegna fyrirtæki þeirra skrifuðu undir Global Compact og ræddu hvaða ávinning þau hefðu af því. Fyrir fáeinum misserum höfðu aðeins tvö fyrirtæki á Íslandi skrifað undir Global Compact, nú eru aðilarnir orðnir 10 og fleiri eru á leiðinni í hópinn.

Í máli þeirra kom fram að sáttmáli S.Þ. um samfélagsábyrgð  henti alls konar fyrirtækjum þar sem sáttmálinn sé sveigjanlegur og fyrirtæki geti byggt upp samfélagsstefnu sína og starf á þeim hraða sem henti hverjum og einum. Global Compact sé gott fyrsta skref fyrirtækja sem vilji móta sér öfluga stefnu á sviði samfélagsábyrgðar eða gera starf sem nú þegar er unnið innan veggja fyrirtækjanna sýnilegra.

Viljálmur Egilsson sagði ábyrg fyrirtæki alltaf hafa verið til en aukin eftirspurn sé eftir því að fyrirtæki geti sýnt fram á með formlegum hætti hvernig þau sinni samfélagsstarfi sínu og hvaða stefnu þau hafi. Vilhjálmur sagði ánægjulegt að það væri vaxandi áhugi á umræðu um samfélagsábyrgð í atvinnulífinu en umræða um samfélagsábyrgð eigi erindi við stjórnendur allra fyrirtækja. Vilhjálmur vakti m.a. athygli á því að á vettvangi ESB hefur verið til umfjöllunar undanfarin misseri löggjöf um að upplýsingaskylda fyrirtækja um önnur mál en fjárhagsleg verði aukin.

Sigurborg benti í erindi sínu á að fjárfestar skoði í auknum mæli hvort fyrirtæki hafi sérstaka samfélagsstefnu og hvernig þau fylgi henni. Það geti ráðið því hvort fjárfest er í fyrirtækjum eða ekki en fyrirtæki sem hugi að þessum málum styrki stöðu sína til lengri tíma. Því megi svo ekki gleyma að stór þáttur af því að vera samfélagslega ábyrgur sé að reka arðbært fyrirtæki. Fyrirtæki sem tapi fjármunum og standi ekki skil á gjöldum sínum til samfélagsins gagnist engum.

Stefán greindi frá því hvernig prentsmiðjan Oddi hefur tekist á við áskoranir tengdar því að vera samfélagslega ábyrgt fyrirtæki í prentgeiranum. Benti Stefán á að í þeirra starfsemi snérist samfélagsábyrgð mikið um umhverfisvottanir og endurvinnslu, sem Oddi hafi lagt ríkulega áherslu á. Oddi rekur t.d. umhverfisvænstu prentsmiðju á Norðurlöndum en þó svo að Oddi endurnýti allan sinn pappír sagði Stefán það ekki vera nóg og því gróðursetji fyrirtækið tré á Íslandi til að gefa til baka til umhverfisins. Global Compact er í augum Stefáns ekki aðeins mikilvægur þáttur í að setja sér góð viðmið heldur hefur sáttmálinn hjálpað Odda töluvert við að ná samningum sem undirverktaki stærri fyrirtækja og félagasamtaka, á erlendum vettvangi. Þar með talið Sameinuðu þjóðanna.

Sigrún Ósk Sigurðardóttir aðstoðarforstjóri ÁTVR ræddi um ábyrgð fyrirtækisins gagnvart bæði neytendum og birgjum. Nefndi hún t.d. að ríkisreknar vínbúðir Norðurlandanna hafi tekið höndum saman varðandi notkun á alþjóðlegum stöðlum og samningum líkt og Global Compact til að nýta í samskiptum við vínframleiðendur. Markmiðið er að tryggja að við framleiðsluna sé ekki brotið á réttindum verkafólks og gengið sé um náttúruna af virðingu. Ennfremur sagði Sigrún frá því hvernig ÁTVR vinnur með ýmsum aðilum á Íslandi að forvörnum.

Finnur Sveinsson sérfræðingur hjá Landsbankanum stýrði fundi og fjörlegum umræðum en áhugaverð erindi frummælenda kveiktu fjölmargar spurningar meðal fundargesta.

Tengt efni:

Vefur Global Compact S.Þ.

Norrænt tengslanet Global Compact

10 viðmið Global Compact

Festa - miðstöð um samfélagsábyrgð