Gerum betur

Í aðdraganda kjarasamninga undirbúa Samtök atvinnulífsins nú ársfund sinn sem haldinn verður 16. apríl næstkomandi. Verkefni samtakanna hafa einkum beinst að því að tryggja framgang markmiða síðustu kjarasamninga um stöðugleika í efnahagslífinu. Í stað þess að stöðugt kapphlaup væri um að launahækkanir gætu haldið í við verðbólguna, var samið um hóflegar launahækkanir sem var ætlað að skila auknum kaupmætti.

Þetta hefur gengið eftir. Kaupmáttur jókst um 5,8% á síðasta ári og hefur aldrei aukist jafn mikið á á einu ári. Verðbólga hjaðnaði úr 4,3% í desember 2013 í 0,8% í desember 2014 og stýrivextir Seðlabanka Íslands lækkuðu um 0,75% á sama tíma.

Þrátt fyrir að vel hafi til tekist á árinu 2014 og öll markmið samninganna náðst – og gott betur – þá fara nú mörg verkalýðsfélög fram með kröfur um tuga prósenta almennar launahækkanir. 

Verði gengið að þessum kröfum munu þær breiðast mjög hratt yfir allan vinnumarkaðinn. Afleiðingin verður mikil verðbólga, hærri vextir og skuldaaukning heimila og fyrirtækja. Lífskjarabatinn lætur standa á sér. Störfum mun fækka, hagur fyrirtækja og hins opinbera mun versna. Fjárfestingar verða minni en ella og draga mun úr nýsköpun og vöruþróun. Lítil fyrirtæki munu líða sérstaklega. Engin leið er að sjá fyrir endann á atburðarás sem felst í gengislækkunum, verðbólgukúfum og óstöðugleika í kjölfarið.

Hhagur starfsfólks og fyrirtækja fer saman og það er allra hagur að kaupmáttur sé sem mestur, verðbólgu sé haldið í skefjum og vextir haldi áfram að lækka.

Grunnur að betri lífskjörum var lagður með síðustu samningum og eina farsæla leiðin til að byggja ofan á hann er að líta á verkefnið sem sameiginlegt. Að tryggja aukinn kaupmátt með bættri frammistöðu og aukinni framleiðni í fyrirtækjunum. Aukin fjárfesting, nýsköpun, vöruþróun og markaðssókn fjölgar störfum, skapar betri störf og hækkar launin.

Verkföll sem hafa það skýra markmið að knýja fram óhóflegar launakröfur sem atvinnulífið og þjóðarbúið standa ekki undir setur allt þetta í uppnám. Tekjur fyrirtækjanna munu dragast saman og starfsmanna líka. Á skuldir heimila, fyrirtækja og ríkissjóða munu hlaðast síhækkandi vextir og verðbætur og afkoma allra versnar.

Það geta allir verið sammála um að 200 þúsund króna byrjunarlaun á vinnumarkaði séu lág. Lægstu byrjunarlaun gilda fyrir þá sem eru nýir á vinnumarkaði, án nokkurrar sérhæfingar og eru að hefja sinn starfsferil. En lægstu laun verða alltaf lág eðli málsins samkvæmt, sama hver talan er, og því er hvorki sanngjarnt né eðlilegt að umræður um launabreytingar í efnahagslífinu öllu fari fram á grundvelli tilfinningalegrar afstöðu til lægstu byrjunarlauna.

Til að koma til móts við kröfur verkalýðsfélaga hafa SA boðið þeim að fara nýja leið við kjarasamningana nú. Þess verði freistað að hækka grunnlaun en lækka um leið álagsgreiðslur á laun. Hlutfall álags- og yfirvinnugreiðslna er mun hærra hér en í nágrannalöndunum. Reglur um greiðslu yfirvinnu eru mun stífari hér en þar og það veldur því að hluti þeirrar vinnu sem hér er greidd sem yfirvinna telst þar vera dagvinna. Miklar yfirvinnugreiðslur má því m.a. rekja til kerfislegra ákvæða í kjarasamningum hér á landi. Töluverður vilji fólks er til að draga úr yfirvinnu og að dagvinnulaunin ein dugi til framfærslu. Breytingar í þá átt gerast ekki í einu vetfangi heldur verða að byggjast á því að forsendum fyrir yfirvinnugreiðslunum sé breytt. Það þarf að gaumgæfa vandlega áhrif slíkra breytinga á samkeppnishæfni fyrirtækjanna sem þurfa tíma til aðlögunar. En þegar fram í sækir verði markmiðið að ný launakerfi verði ráðandi í atvinnulífinu.

Samtökin telja að hér séu forsendur fyrir efnahagslegum framförum og að tækifæri hafi skapast til nýs samfélagssáttmála þar sem deilur um keisarans skegg séu settar til hliðar.

Kaupmáttur fer vaxandi, það ríkir stöðugleiki í efnahagslífinu, rekstur ríkissjóðs er í jafnvægi og almennur jöfnuður er meiri hér á landi en víðast hvar. Við lifum lengur en flestir og búum við góða heilsu. Þjóðin verður sífellt betur menntuð. Velferð og stuðningur við þá sem á þurfa að halda er með því mesta sem gerist.

Vissulega blasa við erfið verkefni. Nefna má losun gjaldeyrishafta, minnkun skulda hins opinbera, aukin útgjöld til lífeyrisgreiðsla og lækkun rekstrarkostnaðar hins opinbera.

Það er hagur allra að hér á landi sé lág verðbólga og efnahagslegur stöðugleiki. Að það ríki samkeppnishæft rekstrarumhverfi sem stuðlar að arðbæru, fjölbreyttu og ábyrgu atvinnulífi sem bætir lífskjör allra.

Þess vegna er hvatningin til okkar allra: Gerum betur.

Björgólfur Jóhannsson,
formaður Samtaka atvinnulífsins.

Leiðari fréttbréfsins Af vettvangi í mars 2015.