Gengi krónu og hlutabréfa óháð stýrivaxtahækkun

Ísland í dag fjallaði um stöðu efnahagsmála og áhrif af stýrivaxtahækkun Seðlabankans og ræddi við þá Vilhjálm Egilsson, framkvæmdastjóra SA og Gylfa Arnbjörnsson framkvæmdastjóra ASÍ. Vilhjálmur sagði gengi krónunnar vera komið allt of langt niður og að það muni ganga til baka óháð vaxtahækkun Seðlabankans. Vilhjálmur gaf ekki mikið fyrir fréttir um að hlutabréfaverð á Íslandi hafi hækkað í kjölfar vaxtahækkunarinnar og benti á að í Bandaríkjunum hafi hlutabréf hækkað í verði vegna þess að bandaríski Seðlabankinn hafi lækkað stýrivexti og væntanlega hafi hlutabréf á Íslandi hækkað vegna þess að seðlabanki Bandaríkjanna lækkaði vextina. Vilhjálmur nefndi að meira að segja hefði komið fram í fréttum Stöðvar 2 að Føroya Banki hefði hækkað í verði vegna þess að Seðlabanki Íslands hafi hækkað stýrivexti!  

Vilhjálmur sagði hækkun stýrivaxta Seðlabankans undanfarin misseri stóralvarlegt mál og hækkun þeirra úr rúmum 5% árið 2004 upp í 15% nú hafi ekki haft tilætluð áhrif, t.d. ef horft væri á gengi krónunnar eða vexti verðtryggðra lána. Tæki bankans virki ekki og hafi leitt af sér miklar sveiflur á gengi krónunnar sem valdi atvinnulífinu miklum óleik.

Vilhjálmur benti á að í raun hafi stýrivextirnir hækkað meira á tímabilinu en tölurnar gefi til kynna vegna breyttrar skilgreiningar. Eðlilegt væri að miða við að stýrivextir hér á landi væru í mesta lagi 2-3% hærri en á evru-svæðinu í stað um 10% munar sem er nú. Hinir háu stýrivextir hafi dregið Íslendinga inn í hóp vandræðalanda og meðal annars orðið til þess að skuldatryggingarálag á íslensku bankana erlendis sé mun hærra en eðlilegt geti talist miðað við stöðu þeirra, rekstur og afkomu. Gífurlegur uppgangur hafi verið innan fjármálageirans á undanförnum árum og greinin sé orðin stærsta og öflugasta útflutningsgrein landsmanna.

Sjá nánar:

Umfjöllun Íslands í dag