Gátlisti fyrirtækja vegna inflúensufaraldurs

Á vef SA má nú nálgast gátlista sem tekinn var saman fyrr á þessu ári af aðilum sem unnu að landsáætlun vegna viðbragða við alheimsinflúensu. Beinist listinn sérstaklega að fyrirtækjum og er ætlað styðja þau við gerð eigin viðbragðsáætlana vegna mannskæðra inflúensufaraldra og fyrirbyggja að rekstur fyrirtækja rofni vegna þeirra.

Gátlistinn getur einnig komið að gagni við undirbúning fyrirtækja vegna annarra farsótta.

"Áætlanagerð um órofinn rekstur er að verða hluti af daglegu starfi hvers framkvæmdastjóra. Sífellt fleiri gera sér grein fyrir því að einn af styrkleikum fyrirtækja felst í því að geta brugðist við ófyrirséðum atburðum á árangursríkan hátt," segir m.a. í skýringum með gátlistanum.

Sóttvarnalæknir, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, ASÍ, Samtök atvinnulífsins, og viðskiptaráðuneytið höfðu samstarf við gerð listans. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra ber ábyrgð á uppfærslu gátlistans og vistun hans í samstarfi við ofangreinda aðila.

Gátlistinn er hluti af landsáætlun vegna hugsanlegs heimsfaraldurs inflúensu en ríkisstjórn Íslands fól almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og sóttvarnalækni að gera slíka áætlun.

Sjá nánar:

Heimsfaraldur inflúensu. Gátlisti - órofinn rekstur fyrirtækja (PDF)