Gardínuhljóðdeyfir líklegur til framleiðslu

Snilldarlausnir Marel 2012 litu dagsins ljós í vikunni þegar tilkynnt var um úrslit í hugmyndasamkeppni framhaldsskólanna. Samtök atvinnulífsins eru bakhjarl keppninnar ásamt Marel en Innovit nýsköpunar- og frumkvöðlasetur sér um framkvæmd hennar. Ár hvert veita Samtök atvinnulífsins sérstaka viðurkenningu fyrir þá hugmynd sem líklegust er til framleiðslu og í ár var það gardínuhljóðdeyfir sem þótti skara fram úr á því sviði. Snilldarlausnin sjálf reyndist vera framúrstefnulegur tölvuvagn og þá þóttu takkaarmbönd og herðabeltistré einnig snilldarhugmyndir.

Verðlaunahafar Snilldarlausna Marel 2012

Markmið Snilldarlausna er að gera sem mest virði úr verðlitlum hlutum og skila framhaldsskólanemar hugmyndum sínum inn í myndbandsformi. Horfa má á verðlaunamyndböndin hér að neðan ásamt kynningum á hugmyndunum.

Nemendur úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja áttu Snilldarlausnina 2012 ásamt hugmyndinni sem þykir líklegust til framleiðslu. Nemendur úr Verslunarskóla Íslands áttu flottasta myndbandið en frumlegasta hugmyndin kom frá nemendum í Fjölbrautaskóla Norðurlands Vestra á Sauðárkróki.

Snilldarlausnin 2012 kemur af Reykjanesinu en hana eiga þeir Gunnar Örn Bragason og Hrannar Elí Pálsson úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja.  Tölvuvagninn er lítill vagn á hjólum undir borðtölvuturna með sérstakri pumpu sem fest er við turninn. Vagninn má nota til að færa turninn úr stað og einnig nota pumpuna til að lyfta tölvunni upp og eiga þannig auðveldar með að tengja snúrur og annað við bakhluta turnsins.

Þeir félagar lýsa hugmyndinni sinni sjálfir þannig: "Tölvuvagninn er gerður úr blikkjárni og gamalli hurðapumpu sem við félagarnir settum svo snyrtilega saman. Þetta er algjör BYLTING í tölvuheiminum."

Horfa á tölvuvagninn

Líklegust til framleiðslu þótti hugmyndin um gardínuhljóðdeyfi sem Suðurnesjamennirnir Þorgils Arnar Þórarinsson, Halldór Jón Grétarsson og Theódór Már Guðmundsson unnu úr afskorningum utan af rafmagnsköplum.

"Með screengardínum myndast hávaði þegar er opinn gluggi og rok úti og getur verið mjög pirrandi. Hugmyndin uppgötvaðist í rafmagnsfræði þegar við vorum að vinna með rafmagnskapla og sáum afskurðinn af köplunum og hugsuðum með okkur að það væri hægt að nýta þetta í eitthvað og með gardínuna á milljón og þá ákváðum að prófa þetta og það virkaði svona ljómandi vel."

Horfa á gardínuhljóðdeyfinn

Frumlegasta hugmyndin er nýjasti tískufylgihluturinn úr  Skagafirðinum en þær Sædís Bylgja Jónsdóttir og Helga Pétursdóttir í Fjölbrautaskóla Norðurlands Vestra á Sauðárkróki endurnýttu gömul fartölvulyklaborð og gerðu úr þeim stórglæsileg armbönd sem þær kalla Takkaarmbönd.

Þær lýsa hugmyndinni svona: "Eftir miklar pælingar hvað við ættum að gera þá datt okkur í hug að nota takka af ónothæfu fartölvu lyklaborði og búa til armbönd. Kostnaður var lítill sem enginn því við áttum mest allt sem við þurftum að nota við þetta. Aðferðin er bara að losa takkana af og mála tvær umferðir og láta það svo þorna. Þegar takkarnir eru orðnir þurrir þá má líma þá á roðið með lími og láta það bíða í augnablik. Þá er það bara tilbúið til notkunar!"

Horfa á frumlegustu hugmyndina

Flottasta myndbandið kemur beint úr skápunum þeirra Árna Steins Viggóssonar og Hauks Kristinssonar úr Verslunarskóla Íslands en þeir notuðu belti til að auka rýmið í fataskápum. Hugmyndina kalla þeir Herðabeltistré.

Árni og Haukur lýsa hugmyndinni svo: "Við notuðum gamalt belti sem við vorum hættir að nota til að spara pláss í fataskápnum, gerðum fleiri göt á beltið og hengdum hreðatré í götin og hengdum svo beltið á herðatrésslána."

Horfa á flottasta myndbandið

SkaparinnSérstakur farandverðlaunagripur var veittur í fyrsta sinn fyrir Snilldarlausnina - Skaparinn - en hann var  hannaður af nýútskrifuðum vöruhönnuðum frá LHÍ og smíðaður í framleiðsludeild Marel í haust. Veitt eru peningaverðlaun, 75.000 kr. fyrir Snilldarlausnina, en aðrir verðlaunahafar fá 50.000 kr.

Tengt efni:

Umfjöllun Sjónvarps mbl.is

Vefur Snilldarlausna Marel