Efnahagsmál - 

03. nóvember 2001

Gagnrýni á skattasamræmingu

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Gagnrýni á skattasamræmingu

Fjöldi erlendra og innlendra sérfræðinga fjallaði um skattamál á ráðstefnu Hagfræðistofnunar um skattasamkeppni í gær, sem haldin var með stuðningi SA og fleiri. Á ráðstefnunni var rætt um möguleika Íslands á að hasla sér völl sem alþjóðleg fjármálamiðstöð í krafti lágra skatta á Íslandi, eins og t.d. Írland og Lúxemborg hafa gert. Einnig var rætt um átak OECD gegn því sem stofnunin nefnir "skaðlega skattasamkeppni" og umræðu um skattasamræmingu innan ESB.

Fjöldi erlendra og innlendra sérfræðinga fjallaði um skattamál á ráðstefnu Hagfræðistofnunar um skattasamkeppni í gær, sem haldin var með stuðningi SA og fleiri. Á ráðstefnunni var rætt um möguleika Íslands á að hasla sér völl sem alþjóðleg fjármálamiðstöð í krafti lágra skatta á Íslandi, eins og t.d. Írland og Lúxemborg hafa gert. Einnig var rætt um átak OECD gegn því sem stofnunin nefnir "skaðlega skattasamkeppni" og umræðu um skattasamræmingu innan ESB.

Ísland á möguleika á þessu sviði.
Almennt voru menn sammála um að Ísland ætti möguleika á þessu sviði. Þannig sagði Michael Walker frá Fraser Institute að Ísland hefði almennt sýnt gríðarlegar framfarir á sviði efnahagsmála undanfarin ár og að fyrirhugaðar skattabreytingar virkuðu einmitt í þá átt að koma Íslandi í hóp þeirra ríkja þar sem skattaumhverfið væri hvað vinsamlegast atvinnulífinu, þótt ávallt mætti betur gera. Roger Bate, hagfræðingur við Institute of Economic Affairs í London, sagði að líkt og Íslendingar hefðu skarað fram úr á sviði fiskveiðistjórnunar gætum við gert það sama á sviði skattasamkeppni.

Hörð gagnrýni á skattasamræmingu.
Hagfræðingurinn Daniel Mitchell við The Heritage Foundation í Washington D.C. líkti átaki OECD við verðsamráð á markaði. Fjármagn væri sífellt hreyfanlegra og því yrðu ríki einfaldlega að keppa um að veita bestu kjörin, m.a. á sviði skattamála. Átak OECD væri örvæntingarfull tilraun til að sporna við þessari þróun, og sagði hann tilburði aðildarríkjanna til að hafa áhrif á skattareglur landa utan þeirra raða vera eins konar "fjárhagslega nýlendustefnu." Sir Roland Sanders, sendiherra Karíbahafseyjanna Antigua og Barbuda í London, tók undir þetta og gagnrýndi stofnunina harðlega fyrir afskiptasemi af innanríkismálum annarra ríkja.

Roland Vaubel, hagfræðiprófessor við Mannheim háskóla, nefndi nokkur dæmi um tilraunir til að samræma skattlagningu á vettvangi ESB. Hann sagði m.a. að ákvörðun sambandsins um 15% lágmarksvirðisaukaskatt frá árinu 1992 væri dæmi um samstarf fjármálaráðherra aðildarríkjanna í þágu skattahækkana og spurði hvort ekki hefði verið eðlilegra að koma sér saman um hámarksskatt. Hann sagði skattasamræmingu milli ríkja vera óhagkvæma þar sem ólík ríki hefðu ólíkar þarfir og möguleika í skattheimtu, m.a. vegna mismunandi aldurssamsetningar, þjóðartekna o.fl. Þá hefði hún tilhneigingu til að leiða til hærri skattheimtu. Veronique de Rugy frá George Mason háskóla sagði Frakka og Þjóðverja hafa verið tregasta svonefndra G-7 ríkja (helstu iðnríkjanna) til að lækka skatta og þeir reyndu því að beita fyrir sig stofnunum á borð við ESB og OECD til að hamla gegn skattalækkunum í samkeppnislöndum.

Samtök atvinnulífsins