Fyrningarleiðin er ófær og verður aldrei þoluð

"Fyrningarleiðin vinnur gegn sjávarútvegi, sjávarbyggðum og þjóðarhag og verður aldrei þoluð." Þetta sagði Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, á fjölmennum baráttufundi íbúa í Vestamannaeyjum í gærkvöldi. Vilhjálmur sagði löggjöf um stjórn fiskveiða byggja á málamiðlunum en mestu skipti að sjávarútvegur sé samkeppnishæf atvinnugrein sem skapi starfsfólki góðar tekjur. Þannig leggi sjávarútvegurinn mest til samfélagsins en árlegar útflutningstekjur greinarinnar nema 200 milljörðum á ári. Vilhjálmur sagði lagalegan stöðugleika nauðsynlegan í greininni og gera verði þá grundvallarkröfu til stjórnvalda að sjávarútvegurinn fái starfsfrið.

Yfirskrift fundarins var Fyrnum fyrningarleiðina!  og sóttu fundinn á bilinu 4-500 manns eða 10. hver íbúi Vestmannaeyja. Upptöku Eyjafrétta af fundinum má nálgast hér að neðan ásamt glærum Vilhjálms Egilssonar. Í ályktun fundarins er þess krafist að stjórnvöld falli þegar í stað frá áformum um svokallaða fyrningarleið í sjávarútvegi enda sé hún í eðli sínu aðför að starfsgrundvelli fyrirtækja í sjávarútvegi og þar með lífskjörum og atvinnuöryggi fólks sem starfi í atvinnugreininni. Á fundinum kom jafnframt fram mikil andstaða við útflutningsálag á ísfiski sem sjávarútvegsráðherra lagði á í vetur og andstaða við áform um afnám sjómannaafsláttar.

Vilhjálmur Egilsson sagði í erindi sínu að sífellt þurfi að hagræða og auka verðmætasköpun í sjávarútvegi til að hann haldi samkeppnishæfni sinni og geti staðið undir sífellt betri kjörum þeirra sem við hann starfi. Vandi landsbyggðarinnar felist í því að ekki hafi tekist að skapa ný og samkeppnishæf störf á móti þeim sem hafi fækkað við hagræðingu í landbúnaði og sjávarútvegi. Lausnin felist ekki í því að stöðva hagræðingu í greininni því þá dragist sjávarútvegurinn aftur úr.

Fjallað er um fundinn í Morgunblaðinu í dag. Í frétt blaðsins segir:

"Afkoma ykkar hér og margra annarra sjávarplássa um landið er í mikilli hættu," sagði Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, á fjölmennum fundi útvegsmanna, sjómanna og Vestmannaeyjabæjar í Eyjum í gærkvöldi. Fundarstjóri taldi að 400-500 manns hefðu verið á fundinum.

Vilhjálmur spurði hvers vegna stjórnvöld vildu stríð við sjávarútveginn í miðri kreppu einmitt þegar þörf væri fyrir samstöðu og nýja sókn í atvinnumálum. Hann sagði að menn ætluðu ekki að láta fyrningarleiðinga yfir sig ganga og spurði hvers vegna það væri svo, að menn vildu vinna hugmyndafræðilega sigra á sjávarútveginum og gera hann að leikfangi fyrir sófaspekinga og kaffihúsasérfræðinga.

Vilhjálmur sagði að þó að búið væri að deila í langa hríð um kvótakerfið þá væri það samt þannig að stöðugt meiri friður væri um það hjá þeim sem störfuðu í sjávarútvegi.

Vilhjálmur sagði að fyrir daga kvótakerfisins hefðu verið eilíf vandamál í rekstri sjávarútvegsins. Árið 1982, þegar yfir 400 þúsund tonn af þorski bárust á land, hefði tap fyrirtækjanna aldrei verið meira. "Það var mjög erfitt að stjórna efnahagsmálum á Íslandi meðan kvótakerfið var handan við hornið. Um leið og það kom lagaðist ástandið og kvótakerfið er einn helsti grundvöllur undir efnahagslegan stöðugleika á Íslandi."

Vilhjálmur sagði að ríkisstjórnin hefði brotið eigin stjórnarsáttmála við fyrirhugaða úthlutun skötuselskvóta. Í sáttmálanum væri kveðið á um að úthlutun veiðiheimilda ætti að ákvarðast af nýtingarstefnu og aflareglu. Samt ætti að úthluta skötuselskvóta sem væri 80% umfram veiðiráðgjöf.

Ríkisstjórnin áformar að setja á fót auðlindasjóð. Vilhjálmur sagði að allir vissu hvernig svona sjóðir virkuðu. Þeir kölluðu á pólitísk afskipti. Hann minnti á að hann hefði sem þingmaður átt þátt í að búa til byggðakvóta og hann hefði síðan passað upp á að Hofsós fengi alltaf úthlutað úr honum. Hann hefði komið þessu rækilega til skila í kjördæminu. "Enda fékk ég alltaf góðan stuðning frá Hofsósi," sagði Vilhjálmur.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, sagði að ógn steðjaði að Eyjum. Það væri ekki nýtt. Eyjamenn hefðu sigrast á náttúruhamförum og hafinu. En þessi nýja ógn, sem stafaði frá stjórnvöldum, væri lúmsk og hættuleg. Til að takast á við hana yrðu Eyjamenn að sýna samstöðu.

Elliði sagði að Eyjamenn hefðu tapað 400 milljónum með ákvörðun sjávarútvegsráðherra um úthlutun skötuselskvóta. Við ákvörðun um að setja á 5% útflutningsálag hefðu Vestmannaeyjar tapað 200 milljónum, þar af hefðu sjómenn tapað 70 milljónum."

Sjá nánar:

Glærur Vilhjálms Egilssonar (PDF)

Upptaka Eyjafrétta af fundinum

Ályktun fundarins ásamt umfjöllun á vef Eyjafrétta