Fyrirtækjum fjölgar sem fá ekki athugasemdir frá skattinum

Samtök atvinnulífsins (SA), Alþýðusamband Íslands (ASÍ) og ríkisskattstjóri (RSK) gerðu með sér samkomulag í júní 2011 um tímabundið átak gegn svartri atvinnustarfsemi undir yfirskriftinni Leggur þú þitt af mörkum? Var samkomulagið gert í kjölfar undirritunar nýrra kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í maí en í aðdraganda samninganna urðu miklar umræður um neikvæðar afleiðingar svartrar atvinnustarfsemi og hvernig mætti efla góða atvinnuhætti.

Átakið náði til fyrirtækja með ársveltu undir einum milljarði. Helstu niðurstöður verkefnisins voru kynntar í nóvember 2011 en þá var ákveðið að framlengja verkefnið til vors. Í nýrri samantekt kemur fram að fyrirtækjum fjölgar sem fá engar athugasemdir frá ríkisskattstjóra.

Vísbendingar eru um að dregið hafi úr svartri atvinnustarfsemi en þó er erfitt að fullyrða að sú sé raunin vegna smæðar úrtaksins sem var til skoðunar í síðari hluta átaksins og árstíðarsveiflna. Á tímabilinu 18. október 2011 - 27. mars 2012 voru 689 fyrirtæki heimsótt með 2.022 starfsmönnum. Í fyrri hluta átaksins voru hins vegar 2.024 lögaðilar heimsóttir á tímabilinu 15. júní til 31. ágúst og 6.167 starfsmenn skráðir.

Rík áhersla var lögð á að nálgast viðfangsefnið með jákvæðum formerkjum, þar sem meginmark­miðið væri að kanna aðstæður, veita ráðgjöf og fræðslu um viðeigandi reglur og lagaramma og hvetja bæði atvinnurekendur og launafólk til að gera nauðsynlegar úrbætur ef þörf krefði.

Nú reyndust rúm 52% fyrirtækjanna vera með öll sín mál í lagi samanborið við tæp 45% síðastliðið haust. Tæp 48% fyrirtækja í seinna úrtakinu reyndust með einhver frávik og fengu leiðbeinandi ábendingar um það sem betur mætti fara eða beinar athugasemdir. Nærri 96% þeirra starfsmanna sem eru í svarti vinnu starfa hjá fyrirtækjum með undir 300 milljónum króna í veltu.

Samstarfsaðilar eru sammála um að vel hafi tekist til með framkvæmd verkefnisins. Ítarlegar niðurstöður átaksins má nálgast hér að neðan.

Sjá nánar:

Átaksverkefni ASÍ, SA og RSK - viðbótarskýrsla 18. maí 2012

Átaksverkefni ASÍ, SA og RSK - fyrstu niðurstöður kynntar í nóvember 2011