Fyrirtækjasöfnun vegna Grímsvatnagoss 2011 gengur vel

Fjársöfnun meðal fyrirtækja í landinu  vegna eldgossins í Grímsvötnum fer vel af stað. Söfnunin fer fram í samráði við Samtök atvinnulífsins en myndaður hefur verið sjóður til að veita bændum og þeirri starfsemi sem fyrir er á þessu svæði,  fjárhagslegan stuðning eftir því sem söfnunarfé hrekkur til og hægt er að bæta með fjárstyrkjum. Lagt verður upp með að taka á með fólkinu á gossvæðinu í því sem útaf stendur hjá Bjargráðasjóði og Viðlagatryggingu.

Fjögurra manna verkefnisstjórn hefur verið valin til að hafa umsjón með söfnuninni, skipuleggja hana og móta reglur. Verkefnisstjórnin mun vinna með heimamönnum að þessu viðbótar hjálparverkefni. Stofnaður hefur verið reikningur í útibúi Arion-banka á Kirkjubæjarklaustri fyrir söfnunina.  Miðað er við upphæðir frá fyrirtækjum á bilinu 100 þúsund krónur til ein milljón.

Verkefnisstjórn söfnunarinnar skipa þau Guðni Ágústsson, fv. landbúnaðarráðherra og framkvæmdastjóri Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM), Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, form Landssambands sauðfjárbænda, Sigurður Loftsson, form. Landssambands kúabænda og  Hugrún Hannesdóttir frá Ferðaþjónustu bænda.

Samtök atvinnulífsins og verkefnisstjórnin hvetja fyrirtæki til þess að bregðast vel við þessu brýna verkefni. Nú þegar hafa 25 - 30 milljónir safnast meðal fjölda fyrirtækja sem hafa lagt málinu lið.

Tengiliður vegna söfnunarinnar er Guðni Ágústsson sem veitir nánari upplýsingar.

Fyrirspurnir má senda á gudni@sam.is.

Reikningsnúmer söfnunarinnar er:  317-26-2200. Kt.: 470788 1199  (SAM)

Tengt efni:

Um upphaf söfnunarinnar