Fyrirtækin í landinu telja aðgerðir stjórnvalda þeirra helsta vandamál

Þriðjungur forsvarsmanna aðildarfyrirtækja Samtaka atvinnulífsins telja aðgerðir stjórnvalda vera helsta vandamál fyrirtækisins við núverandi aðstæður og á næstu misserum og tæplega fjórðungur til viðbótar setur aðgerðir stjórnvalda í annað sæti meðal helstu vandamála þeirra. Þetta kemur fram í nýrri könnun SA á rekstrarhorfum fyrirtækja sem gerð var dagana 29. október til 8. nóvember 2010. Um 60% forsvarsmanna fyrirtækja í sjávarútvegi telja aðgerðir stjórnvalda vera helsta vandamál fyrirtækisins og um 40% fyrirtækja í verslun, þjónustu og fjármálum.

Skuldir og hár fjármagnskostnaður er annað helsta vandamál fyrirtækja að mati forsvarsmanna þeirra, en fjórðungur þeirra setur það í fyrsta sæti og þriðjungur til viðbótar setja það í annað sæti. Rúmlega fjórir af hverjum tíu (42%) forsvarsmönnum setja litla eftirspurn og erfiðan markað í fyrsta og annað sæti yfir helstu vandamál fyrirtækisins og um þrír af hverjum tíu setja skattamál í þau sæti. Tiltölulega fáir hafa verulegar áhyggjur af takmörkuðu aðgengi að hæfu starfsfólki.

Smelltu til að stækka

Forsvarsmenn fyrirtækjanna voru einnig beðnir um að raða eftir mikilvægi sjö skilaboðum til stjórnvalda um brýnustu úrlausnarefnin. Þau skilaboð voru eftirfarandi: Greiða fyrir stórframkvæmdum, afnema gjaldeyrishöft, lækka vexti, vinda ofan af skattahækkunum, veita sjávarútveginum starfsfrið, aðilar vinnumarkaðarins stýri atvinnuleysistryggingum og lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna og starfsfólks á almenna markaðnum verði á sambærilegum grunni.

Flestir forsvarsmenn töldu brýnasta úrlausnarefni stjórnvalda vera að greiða fyrir stórframkvæmdum (35%) og að vinda ofan af skattahækkunum (21%). Þessir tveir þættir hafa veruleg áhrif á að fyrirtæki fari að fjárfesta og fjölga störfum. 16% forsvarsmanna telja brýnast að lækka vexti, 13% telja brýnast að stjórnvöld veiti sjávarútveginum starfsfrið og jafn margir að lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna og starfsfólks á almenna markaðnum verði á sambærilegum grunni. Loks telja 10% brýnast að afnema gjaldeyrishöftin. Nálægt þrjú af hverjum fjórum fyrirtækjum í sjávarútvegi telja brýnast að stjórnvöld veiti sjávarútveginum starfsfrið.