Fyrirtækin eru sammála um stefnu í kjaramálum

Samtök atvinnulífsins hafa lagt áherslu á að allir hópar fái sambærilega og hóflega prósentuhækkun launa í næstu kjarasamningum.Tvö af hverjum þremur eða 67% aðildarfyrirtækja SA eru frekar eða mjög sammála þessari stefnu.18% segjast hvorki sammála né ósammála en 15% eru frekar eða mjög ósammála. Þetta kemur fram í nýrri könnun SA meðal fyrirtækjanna.

Niðurstöðurnar eru svipaðar fyrir öll aðildarsamtök SA en fyrirtækin í könnuninni endurspegla sjávarútveg, iðnað, byggingastarfsemi, veitur, verslun og samgöngur, hótel og veitingahús, fjármála- og tryggingafyrirtæki. Áætlað er að í þessum atvinnugreinum starfi um 88.000 manns um þessar mundir.

Fyrirtækjunum sem þátt tóku í könnuninni gafst tækifæri til að koma skilaboðum á framfæri til SA vegna kjarasamninganna. 185 nýttu sér þennan möguleika. Algengast var að menn telja lítið sem ekkert svigrúm til að hækka laun. Einnig var mjög oft minnst á nauðsyn þess að lækka tryggingagjald og aðra skatta. Þó nokkrir töldu að frekar ætti að hækka lægstu laun en semja um almenna launahækkun. Ýmsir sögðu að launahækkanir myndu leiða til uppsagna og hækkunar á vöruverði og útseldri þjónustu.

Hér fara á eftir dæmigerð skilaboð úr könnuninni:

"Kaupmáttur launafólks hefur lækkað en á sama tíma eiga flest fyrirtæki undir högg að sækja. Fyrirtæki og einstakingar hafa mátt þola auknar álögur og staða margra heimila er erfið. Það er því ekki óeðlilegt að þrýst sé á um hækkun launa en eins og þið þekkið vel þá þurfa fyrirtækin að þola slíkar hækkanir, annars er hætt við að til frekari uppsagna komi."

"Komi til hækkana þurfum við að segja upp fleira starfsfólki. Það eina sem gildir í næstu kjarasamningum er að ná einhverskonar þjóðarsátt sem fælist í skattalækkunum, uppbyggingu atvinnuvega, nýjan gjaldmiðil og aðstoð við heimilin í landinu."

"Laun verði ekki hækkuð á næsta ári, nema ríkisstjórnin hafi tekið á vanda atvinnulífsins. Einnig þarf ríkisstjórnin að láta af fyrirtækjahatri og útlendingahræðslu. Hófleg hækkun yrði síðan 2012 ef efnahagslífið sýnir bata. Skoða mætti meiri hækkun ef tryggingagjaldið yrði lækkað aftur."

"Á sama tíma og þrengt er að rekstrarforsendum fyrirtækja á Íslandi með sköttum og samdrætti í neyslu er erfitt að bæta kjör starfsfólks. Jafnan gengur illa upp."

"Hófstilltar hækkanir eru lykilatriði. Þjóðfélagið ætti frekar en að hækka laun umtalsvert að leggja áherslu á sköpun nýrra starfa fyrir allan þann fjölda sem er án atvinnu. Slíkt er allra hagur."

----------

Um könnunina

Könnunin var rafræn og gerð meðal aðildarfyrirtækja SA  dagana 29. október til 8. nóvember 2010 en framkvæmd hennar var í höndum Outcome hugbúnaðar ehf.  Markmiðið með könnuninni var að fá skýrari mynd af horfunum framundan í íslensku atvinnulífi.

Könnunin var tölvupóstkönnun og var send til 1.754 fyrirtækja en fjöldi svarenda var 572 og var  svarhlutfall því 33%. Áætlað er að 33.000 starfsmenn starfi hjá þeim fyrirtækjum sem þátt tóku í könnuninni.