Fyrirtækin berjast áfram - engin uppgjöf

Um fjögur af hverjum tíu aðildarfyrirtækjum SA hafa haldið að sér höndum í ráðningum á árinu og hyggjast halda óbreyttum starfsmannafjölda til áramóta. Þetta kemur fram í nýrri könnun SA á atvinnuhorfum meðal fyrirtækjanna. Stjórnendur 14% fyrirtækja sjá fyrir sér fjölgun starfsfólks á árinu en 48% þeirra hafa fækkað starfsfólki eða hyggjast gera það. Horfur á vinnumarkaði hafa versnað frá því í júlí þegar sambærileg könnun var gerð. Þá sáu 48% stjórnenda fram á óbreyttan starfsmannafjölda innan ársins, 31% fækkun og 21% fjölgun.

Skýr skilaboð til stjórnvalda

Könnunin var rafræn og gerð meðal aðildarfyrirtækja SA  dagana 15.-18. október sl. en framkvæmd hennar var í höndum Outcome hugbúnaðar ehf.  Markmiðið með könnuninni var að fá skýrari mynd af horfum í íslensku atvinnulífi. Spurt var um starfsmannafjölda um síðustu áramót og áætlaðan starfsmannafjölda um næstu áramót. Einnig var spurt að því meðal þeirra sem hyggjast fjölga starfsfólki úr hvaða hópi ráðningar séu einkum fyrirhugaðar. Um 6% hyggjast einkum ráða ófaglærða eða verkafólk, 4% hyggjast ráða iðnaðarmenn og 3% háskólamenntaða eða sérfræðinga.

Þá var einnig spurt að því meðal þeirra sem hyggjast fækka fólki úr hvaða hópi uppsagnir eru einkum fyrirhugaðar. Um fjórðungur fyrirtækjanna hyggst einkum segja upp ófaglærðum eða verkafólki, um 15% iðnaðarmönnum og 7% háskólamenntuðum eða sérfræðingum. Samkvæmt þessu mun störfum ófaglærðra fækka mest á næstunni.

Þá bauðst stjórnendum fyrirtækja að koma skilaboðum áleiðis til stjórnvalda og kemur skýrt fram  af miklum fjölda ábendinga hvað atvinnulífið telur brýnast: Að koma gjaldeyrisviðskiptum í lag, lækka stýrivexti og auka stöðugleika á öllum sviðum - einkum í gjaldmiðilsmálum.

Niðurstöður yfirfærðar á atvinnulífið í heild

Fyrirtækin í könnuninni endurspegla sjávarútveg, iðnað, byggingarstarfsemi, veitur, verslun og samgöngur, hótel og veitingahús, fjármála- og tryggingafyrirtæki. Könnunin nær þó ekki til stóru bankanna þriggja. Í þessum atvinnugreinum störfuðu 92.500 manns á síðasta ári og námu launagreiðslur til þeirra rúmlega 470 milljörðum króna. Hjá þeim fyrirtækjum í könnuninni sem þegar hafa fjölgað starfsmönnum eða áforma það nemur fjölgunin 2,1% af starfsmannafjölda en þegar framkvæmd eða áformuð fækkun nemur 9,6%. Nettófækkun starfsmanna á árinu er því 7,5%. Þessi hlutfallstala, 7,5%, svarar til þess að störfum muni fækka um tæplega 7.000 í þessum atvinnugreinum á árinu. Launagreiðslur sem brott falla af þeim sökum nema 34 milljörðum króna eða sem nemur 2,3% af vergri landsframleiðslu. Þetta er mikil breyting frá niðurstöðum sambærilegrar könnunar í júlí sl. en þá var áformuð nettófækkun starfsmanna 2,7% sem svarar til 2.500 starfa.

----------------------

Um könnunina:


Könnunin var tölvupóstkönnun og var send til 1.774 fyrirtækja en fjöldi svarenda var 563, svarhlutfall var því 32%. Langflestir svarenda (81%) voru með undir 50 starfsmenn í vinnu, flestir með 5 starfsmenn eða færri (29%).