Fyrirtæki og stofnanir leiðrétti kynbundinn launamun

"Kynbundnum launamun verður einungis breytt á fyrirtækja- og stofnanagrunni, þar sem hann á sér stað. Engin tvö fyrirtæki eða stofnanir eru nákvæmlega eins eða samanburðarhæf." Þetta segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, í viðtali við Viðskiptablað Morgunblaðsins. Hann segist hafa mikla trú að að samstarf um jafnlaunastaðal geti hjálpað til við að eyða kynbundnum launamun en hver vinnustaður fyrir sig verði að skoða sín mál.

"Það er á ábyrgð fyrirtækjanna að eyða kynbundnum launamun sé hann fyrir hendi. Þá hlýtur að vera markmið okkar allra að tækifærin verði jöfn og launin séu jöfn milli kynja. Við viljum öll ná árangri og erum að ná honum hægt og rólega. En kynbundinn launamunur, sem getur verið á báða bóga, hverfur ekki nema með því að stöðugt sé fylgst með honum innan einstakra fyrirtækja og stofnana."

Þorsteinn bendir á að ekki sé hægt að fullyrða um óeðlilegan kynbundinn launamun í svo stóru meðaltali eins og gert hefur verið í launakönnunum því að baki liggi ýmsar tölfræðilegar skýringar og gildrur sem varast þurfi. Ólíkt launastig í tveimur fyrirtækjum geti valdið því að það mælist kynbundinn launamunur í launarannsókn þótt í hvorugu fyrirtækinu sé hann til staðar.

Í viðtalinu ræðir Þorseinn einnig um kjarasamninga hjúkrunarfræðinga en hann segir að þar hafi verið reynt að breyta launahlutföllum milli starfsgreina hjá hinu opinbera í gegnum miðlæga kjarasamninga.

"Það þarf að gera skýran greinamun á því og kjara- og kaupmáttarþróun almennt. Á Norðurlöndum er ekki talið mögulegt að breyta hlutfallslegum launamun, þ.m.t. launamun milli kynja með miðlægum kjarasamningum nema með víðtækri sátt annarra starfsgreina en þeirrar sem á í hlut. Ef reynt er að breyta hlutfallslegri stöðu heillar starfgreinar gagnvart öðrum án slíkrar sáttar fer af stað endalaus eltingaleikur. Sá eltingaleikur hefur verið stundaður á íslenskum vinnumarkaði í áratugi og honum linnir aldrei," segir Þorsteinn sem bætir við að eltingaleikur sem þessi valdi einungis launaskriði og verðbólgu.

Aðspurður um ný lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja segir Þorsteinn:

,,Það er í raun mjög óæskilegt að verið sé að lögbinda hvernig fyrirtæki skipa í stjórnir, það gengur þvert á þann rétt hluthafa til að ráða sínum málum sjálfir. Ég tel að við höfum gengið of langt, það hafi verið óþarfi að láta þessa löggjöf gilda fyrir jafn smáar einingar og við gerðum. Það hefði verið nóg í fyrstu lotu að láta hana gilda fyrir stærstu fyrirtækin, lífeyrissjóði og opinbera aðila og meta árangurinn af því áður en lengra væri haldið. Það er ljóst að hún er að skila árangri í stjórnunum og viðbrögðin eru góð því öll fyrirtæki vilja vera innan ramma laganna og ganga oft lengra en þarf sem er jákvætt," segir Þorsteinn sem telur enn áhugaverðara að sjá hvort þetta hafi áhrif til lengri tíma litið á fjölda kvenna í stjórnunarstöðum og millistjórnendastöðum.  

Ítarlegt viðtal við Þorstein var í Viðskiptablaði Morgunblaðsins 20. júní 2013