Efnahagsmál - 

04. júlí 2002

Fyrirtæki hyggjast fækka fólki

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Fyrirtæki hyggjast fækka fólki

Að meðaltali hyggjast fyrirtæki fækka starfsfólki um 0,8% á næstu þremur til fjórum mánuðum, samkvæmt könnun Samtaka atvinnulífsins sem gerð var í júní. Þetta er talsverð breyting frá síðustu mælingu sem SA gerðu í desember 2001, en þá hugðust fyrirtæki að meðaltali fækka starfsfólki um 0,5%. Þá er þetta mun hærri tala en fram kom í könnun Vinnumálastofnunar sem gerð var í apríl/maí sl., en samkvæmt henni vildu fyrirtæki fækka starfsfólki um 0,4%. Þessi fækkunaráform eiga þó ekki að þurfa að koma á óvart í ljósi þess að áætlað er að landsframleiðslan dragist saman um 0,8% á þessu ári. Rúm átta prósent fyrirtækja hyggjast fjölga starfsfólki en rúm 15% hyggjast fækka því, einkum stærri fyrirtæki.

Að meðaltali hyggjast fyrirtæki fækka starfsfólki um 0,8% á næstu þremur til fjórum mánuðum, samkvæmt könnun Samtaka atvinnulífsins sem gerð var í júní. Þetta er talsverð breyting frá síðustu mælingu sem SA gerðu í desember 2001, en þá hugðust fyrirtæki að meðaltali fækka starfsfólki um 0,5%. Þá er þetta mun hærri tala en fram kom í könnun Vinnumálastofnunar sem gerð var í apríl/maí sl., en samkvæmt henni vildu fyrirtæki fækka starfsfólki um 0,4%. Þessi fækkunaráform eiga þó ekki að þurfa að koma á óvart í ljósi þess að áætlað er að landsframleiðslan dragist saman um 0,8% á þessu ári.  Rúm átta prósent fyrirtækja hyggjast fjölga starfsfólki en rúm 15% hyggjast fækka því, einkum stærri fyrirtæki.

(smellið á myndina)

Eins og í fyrri könnunum vega fyrirtæki með færri en 60 starfsmenn
fjórfalt á við stærri fyrirtæki, en stór fyrirtæki eru með mun betri svörun en lítil


Samdráttur í öllum greinum

Athygli vekur að fækkunaráform virðast uppi í öllum greinum, en mismikil þó. Þannig virðist hverfandi fækkun framundan í iðnaði en mest í ferðaþjónustu, líkt og svo oft á haustin, rúm tvö prósent. Einnig virðist talsverð fækkun framundan í starfsmannahaldi hjá útgerðar- og fjármálafyrirtækjum, eða um eitt og hálft prósent.

Stór fyrirtæki hyggjast fækka fólki

Þá vekur athygli að enn eru það einkum fyrirtæki með fjörutíu starfsmenn eða fleiri sem hyggjast segja upp fólki, en hið sama kom fram í mælingum SA í desember sl. og í júní 2001. Mörg hyggjast þau segja upp tíu til tuttugu manns, samkvæmt könnuninni. Á þessu geta verið ýmsar skýringar, en á það hefur áður verið bent að erlendar athuganir benda til þess að hagsveiflur (hér: samdráttur) komi fyrr fram hjá stórum fyrirtækjum en litlum.

Aftur minni eftirspurn á landsbyggðinni

Ólíkt því sem komið hefur fram í flestum mælingum undanfarið ár eða svo (t.d. mælingum SA og Vinnumálastofnunar) mælist nú minni eftirspurn eftir starfsfólki á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt könnuninni hyggjast fyrirtæki með starfssvæði á höfuðborgarsvæðinu fækka fólki um 0,3% en fyrirtæki á landsbyggðinni um 1,4%. Fyrirtæki með starfssvæði á landinu öllu hyggjast fækka fólki um 0,8%. Breytingin skýrist að einhverju leyti af árstíðarsveiflu, einkum í ferðaþjónustu.

Rúmlega þrettán hundruð aðildarfyrirtæki Samtaka atvinnulífsins voru spurð um ráðningaráform sín næstu þrjá til fjóra mánuði. Tekið var fram að lausráðningar væru ekki taldar með. Alls bárust svör frá tæplega sex hundruð fyrirtækjum, eða rúmum 44% aðspurðra.

Samtök atvinnulífsins