Efnahagsmál - 

05. Febrúar 2004

Fyrirtæki hyggjast draga úr fjárfestingum (2)

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Fyrirtæki hyggjast draga úr fjárfestingum (2)

Nokkur samdráttur virðist framundan í fjárfestingum fyrirtækja. 31% fyrirtækja hyggst fjárfesta minna í ár en á síðasta ári, 47% hyggjast fjárfesta álíka mikið og 22% hyggjast fjárfesta meira en í fyrra. Þetta eru niðurstöður könnunar sem Samtök atvinnulífsins gerðu meðal aðildarfyrirtækja í janúar. Samkvæmt þessum tölum halda fyrirtækin ennþá almennt að sér höndum í fjárfestingum, sem kemur ef til vill á óvart miðað við það sem ætla mætti af helstu hagvaxtarspám undanfarinna mánaða. Þetta kemur þó ágætlega heim og saman við nýlega könnun SA á ráðningaráformum fyrirtækja, en samkvæmt henni er lítil hreyfing framundan á vinnumarkaði.

Nokkur samdráttur virðist framundan í fjárfestingum fyrirtækja. 31% fyrirtækja hyggst fjárfesta minna í ár en á síðasta ári, 47% hyggjast fjárfesta álíka mikið og 22% hyggjast fjárfesta meira en í fyrra. Þetta eru niðurstöður könnunar sem Samtök atvinnulífsins gerðu meðal aðildarfyrirtækja í janúar. Samkvæmt þessum tölum halda fyrirtækin ennþá almennt að sér höndum í fjárfestingum, sem kemur ef til vill á óvart miðað við það sem ætla mætti af helstu hagvaxtarspám undanfarinna mánaða. Þetta kemur þó ágætlega heim og saman við nýlega könnun SA á ráðningaráformum fyrirtækja, en samkvæmt henni er lítil hreyfing framundan á vinnumarkaði.

Fyrir ári síðan boðuðu fyrirtæki ívið meiri samdrátt en þau gera nú, en þá hugðust 38% fjárfesta minna en árið áður, 19% hugðust fjárfesta meira en 43% álíka mikið.

Mestur samdráttur í sjávarútvegi
Eftir horft er á einstakar atvinnugreinar eftir aðildarfélögum SA kemur verulegur munur í ljós. Áberandi mestur samdráttur fjárfestinga virðist framundan í sjávarútvegi, en þar hefur fjárfesting verið mjög mikil undanfarin ár. Í útgerð (LÍÚ) boða 44% fleiri fyrirtæki samdrátt en aukningu og 36% fyrirtækja gera slíkt hið sama í fiskvinnslu (SF). Nokkur samdráttur virðist framundan hjá rafverktökum (SART) og í iðnaði (SI), en jafnvægi virðist ríkja milli ára í verslun og þjónustu (SVÞ) og í ferðaþjónustu (SAF). Fjármálafyrirtækin (SFF) skera sig hins vegar úr, en einungis í þeirri grein hyggjast fleiri fyrirtæki auka fjárfestingar sínar í ár en minnka, 22% fjármálafyrirtækja. Ljóst er að mörg fjármálafyrirtækjanna eru þarna að horfa til frekari landvinninga á erlendri grundu. Ekki er hins vegar sýnilegur munur á fjárfestingaráformum eftir stærð fyrirtækja eða starfssvæði.

Ekki skilaboð um upphæðir
Ekki er hægt að draga þá ályktun af þessum tölum að heildarfjárfesting atvinnulífsins verði minni í ár en í fyrra. Einstakar fjárfestingar geta skipt sköpum um þá tölu og til dæmis er ljóst að fjárfestingar vegna stóriðjuframkvæmda verða meiri í ár en í fyrra. Hins vegar sýna þessar tölur sem fyrr segir að almennt halda fyrirtækin ennþá að sér höndum og að minna bólar á títtnefndri uppsveiflu í efnahagslífinu en ætla mætti af helstu hagvaxtarspám undanfarinna mánaða.

Um könnunina
Könnunin var gerð í janúar og var hún send til 793 fyrirtækja. Svör bárust frá 494 þeirra, eða 62,3%.

Samtök atvinnulífsins