Fyrirtæki geri áhættumat á vinnustað

Í nóvember síðastliðnum tók gildi reglugerð nr. 920/2006 um skipulag og framkvæmd á vinnuverndarstarfi í fyrirtækjum. Reglugerðin felur það í sér að koma skal á kerfisbundnu vinnuverndarstarfi innan fyrirtækja, með það að markmiði að starfsmenn séu verndaðir gegn heilsuvá og heilsutjóni, dregið sé úr veikindafjarvistum og stuðlað að andlegri og líkamlegri vellíðan starfsmanna á vinnustað.

Skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði

Samkvæmt reglugerðinni ber öllum fyrirtækjum að gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði. Þessi lagaskylda er óháð stærð fyrirtækja og starfgrein eða starfsmannafjölda. Við gerð áætlunarinnar skal hafa samstarf við starfsmenn. Öryggisvörðum og öryggistrúnaðarmönnum í öryggisnefndum er skylt að taka þátt í gerð áætlunarinnar og eiga að fylgjast með framkvæmd hennar.

Áhættumat á vinnustað

Gerð áætlunar um öryggi felur í sér að fyrst er framkvæmt skriflegt áhættumat á vinnustaðnum, þar sem metin er áhætta í starfi með tilliti öryggis og heilsu. Aðferðin við framkvæmd áhættumats er valfrjáls en þarf að vera til þess fallin að greina áhættu.

Áhættumat felur í fyrsta lagi í sér greiningu. Vinnuaðstæður eru skoðaðar á kerfisbundinn hátt og áhættuþættir eru greindir og skráðir. Í öðru lagi fer fram mat, þar sem allir áhættuþættir eru metnir, eðli þeirra, umfang og orsök. Eðli hættu og líkur á að hætta skapist eru metnar. Að lokum fer fram samantekt, þar sem niðurstaða áhættumatsins er skráð.

Skrifleg áætlun um öryggi og eftirfylgni

Gefi skriflegt áhættumat til kynna að öryggi og heilsu starfsmanna sé hætta búinn skal atvinnurekandi grípa til forvarna og útbúa tímasetta áætlun um forvarnir og heilsuvernd og nauðsynlegar úrbætur á vinnustaðnum. Gera skal nauðsynlegar ráðstafanir vegna skyndihjálpar, slökkvistarfs og brottflutnings starfsmanna vegna hættu.

Skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað felst í því að meta áhættu í starfi á vinnustað, síðan er útbúin áætlun um öryggi, heilsuvernd og forvarnir. Það er á ábyrgð atvinnurekanda að fylgja eftir þeim úrbótum og tímasetningum sem þessi skriflega áætlun felur í sér. Áætlunin er ferli stöðugra umbóta og þarf að endurskoða reglulega með tilliti til breytinga í vinnuumhverfi.

Einföld framkvæmd - meðalhóf við innleiðingu

Atvinnurekandi á almennt sjálfur að geta annast gerð áhættumats og útbúið áætlun um öryggi og heilbrigði nema aðstæður séu þannig á viðkomandi vinnustað að þörf sé á sérstakri færni sem atvinnurekandi eða starfsmenn hans hafa ekki yfir að ráða. Þetta kemur skýrt fram í nefndaráliti félagsmálanefndar sem fylgdi lagaákvæðum sem nýja reglugerðin byggir á. Framkvæmdin á því að geta verið tiltölulega einföld nema aðstæður séu þannig að vitað sé um eða grunur leiki á að ákveðnir þættir í vinnuumhverfi starfsmanna hafi áhrif á öryggi þeirra og heilbrigði sem atvinnurekandi geti ekki metið. Þá kann atvinnurekandi að þurfa að ráða viðurkennda þjónustuaðila, sér til aðstoðar. Þær hæfniskröfur sem gerðar verða til starfsmanna atvinnurekanda sem sinna öryggi og heilbrigði á vinnustað eiga að taka mið af þessu auk almennra reglna um meðalhóf.

Kynningarátak Vinnueftirlitsins um gerð áhættumats

Vinnueftirlitið (VER) kynnti nýju reglugerðina formlega á fjölsóttri ráðstefnu í lok janúar og markaði ráðstefnan upphaf sérstaks kynningar- og fræðuátaks stofnunarinnar. VER mun halda sérstök námskeið um land allt um gerð áhættumats og eftirlitsmenn þess munu gefa upplýsingar um reglugerðina í fyrirtækjaheimsóknun og kanna hvort vinnuverndarstarf sé í samræmi við ákvæði hennar. Ef svo er ekki munu fyrirtækin fá tímasett fyrirmæli um gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði, tveggja til sex mánaða frest eftir mati eftirlitsmanns.  

Kynningarefni og leiðbeiningar á vef VER

Til leiðbeiningar fyrir atvinnurekendur við gerð áhættumats hefur Vinnueftirlitið gefið út bækling um gerð áhættumats. VER hefur einnig útbúið 23 vinnumhverfisvísa sem fyrirtæki geta notað sem hjálpartæki við að greina áhættu í hinum ýmsu atvinnugreinum.

Á ráðstefnu VER kynntu tvö stór matvælafyrirtæki, MS á Selfossi og kjötvinnsla SS á Hvolsvelli, reynslu sína en fyrirtækin tóku þótt í tilraunaverkefni VER á árunum 2004-2005 um gerð áhættumats. Bæði fyrirtækin notuðu vinnuumhverfisvísa VER fyrir matvælaiðnað við áhættumatið. Lýstu fyrirtækin ánægju sinni með leiðbeiningar VER. Sjá glærur fyrirlesara frá ráðstefnunni.

Bæklingur VER um gerð áhættumats (PDF)

Vinnuumhverfisvísar VER