Fyrirtæki gæti hófs í verðhækkunum
Ein mikilvægasta forsenda kjarasamninganna sem gerðir voru fyrir jól er að tryggja að markmiðið um 2,5% verðbólgu náist á þessu ári. Allar forsendur eru til að það markmið náist jafnvel þegar í febrúar ef rétt er á málum haldið. Takist það er lagður grunnur að stöðugleika til lengri tíma, búið í haginn fyrir kaupmáttaraukningu og aukna atvinnu og sköpuð skilyrði til lækkunar vaxta. Allir munu hagnast náist þetta. Skilyrði til fjárfestinga batna, hagvöxtur getur aukist, framleiðni fyrirtækja eykst og lífskjör munu batna.
Þess vegna eru fréttir fjölmiðla í dag og gær af yfirvofandi
verðhækkunum innlendra framleiðenda mikið áhyggjuefni. Með því að
miða við verðbólgu liðins tíma þegar teknar eru ákvarðanir um
verðhækkanir er markmiðum kjarasamningsins stefnt í hættu.
Verðlagsbreytingar verða að taka mið af horfunum fram undan og þótt
kunni að þrengja að á einstökum sviðum þá verður ávinningurinn
miklu meiri þegar upp er staðið.
Samtök atvinnulífsins leggja mikla áherslu á að ríkið,
sveitarfélög og fyrirtækin stilli gjaldskrárhækkunum og
verðhækkunum í hóf. Markmið samninganna munu ekki nást nema allir
aðilar virði þau og myndi samstöðu gegn verðbólgu. Það er tækifæri
til að skapa stöðugt verðlag sem kemur öllum til góða.
Það er fátt í ytra umhverfi okkar nú sem gefur tilefni til mikilla
verðhækkana nú. Verðbólga erlendis hefur verið lág og gengi
íslensku krónunnar hefur styrkst á undanförnum mánuðum. Niðurstaða
kjarasamninga er í samræmi við verðlagsstöðugleika og gefur því ein
og sér ekki tilefni til mikilla verðbreytinga. Sveitarfélög hafa
mörg hver lýst því yfir að engar hækkanir verði á gjaldskrám þeirra
nú um þessi áramót. Jafnframt hefur ríkisstjórnin heitið því að
draga hluta verðhækkana sinna til baka, verði nýgerðir
kjarasamningar samþykktir. Það er því í höndum fyrirtækjanna að
tryggja að við náum settum markmiðum hvað varðar
verðlagsstöðugleika á þessu ári.
Verðbólgan hækkar skuldir fyrirtækja ekki síður en einstaklinga og
náist ekki markmið samninganna munu fyrirtækin finna ótæpilega
fyrir auknum vaxtakostnaði. Minni verðhækkanir einstakra fyrirtækja
munu því gagnast þeim sjálfum ekki síður en öðrum.