Fyrirtæki fari reglulega og kerfisbundið yfir launagreiðslur

Það er mikilvægt að fyrirtæki fari reglulega og kerfisbundið yfir launagreiðslur sínar til að ekki myndist skekkja milli starfsmanna, en mismunun getur komið upp við nýráðningar og einstaklingsbundnar launaákvarðanir. Þetta kom m.a. fram í máli Hannesar G. Sigurðssonar, aðstoðarframkvæmdastjóra SA, á súpufundi hjá Kvenréttindafélagi Íslands. Þar kom einnig fram að stefnt sé að því að halda áfram samstarfi Samtaka atvinnulífsins, ParX viðskiptaráðgjafar IBM og Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem hafa rannsakað launagreiðslur íslenskra fyrirtækja. Niðurstöður rannsóknar þessara aðila fyrir árið 2006 sýndu 10-12% óútskýrðan launamun milli kynja. Gögn um ábyrgð starfsmanna, frammistöðu eða fjölskylduaðstæður voru ekki tiltæk, en vera kann að hluta launamunarins megi rekja til þessara þátta og því ekki hægt að fullyrða að einungis sé um kynbundinn launamun að ræða. Í rannsókninni fyrir árið 2007 verður sérstaklega horft til áhrifa ábyrgðar starfsmanna á launagreiðslur.

Ekki hægt að alhæfa um íslenskan vinnumarkað

Hannes birti í erindi sínu yfirgripsmikil gögn um laun karla og kvenna á íslenskum vinnumarkaði og ræddi um rannsóknir sem hafa verið birtar á launamun kynjanna. Vísaði hann m.a. til Helga Tómassonar, sem hefur varað við að draga of víðtækar ályktanir um launamun kynjanna út frá opinberum gögnum. Hannes ræddi einnig um skýrslu Capacent um launamyndun og kynbundinn launamun sem gefin var út í október 2006. Sagði Hannes skýrsluna vandaða, en hún væri takmörkuð að því leyti að hún byggði eingöngu á fjórum fyrirtækjum og fjórum stofnunum. Í henni væri jafnframt undirstrikið að ekki sé hægt að alhæfa út frá henni um íslenskan vinnumarkað í heild - niðurstaðan endurspegli aðeins viðkomandi fyrirtæki og stofnanir. Það hafi þó óspart verið gert af stjórnmálamönnum og öðrum sem hafi talið niðurstöður skýrslunnar staðfesta brot á lögum og mannréttindum.

Í erindinu fjallaði Hannes einnig um áhrifaþætti á launamyndun og afstöðu SA til kerfisbundinnar launamismununar sem hefur verið tekin saman hér í þremur punktum:

• Kerfisbundin launamismunun milli kynja af hálfu stjórnenda væri órökrétt og  óheimil ráðstöfun á hagnaði eigenda fyrirtækjanna.

• Kerfisbundin launamismunun milli kynja er óhugsandi á frjálsum vinnumarkaði þar sem starfsmenn skipta ört um vinnu.

• Mismunun á báða bóga getur þó komið upp við nýráðningar og einstaklingsbundnar launaákvarðanir og því er mikilvægt að fyrirtæki fari reglulega og kerfisbundið yfir það að ekki myndist skekkja milli starfsmanna.

Sjá nánar:

 

Glærur Hannesar G. Sigurðssonar

Rannsókn á launagreiðslum íslenskra fyrirtækja árið 2006