Fundur SA og stjórnmálaleiðtoga: Samstaða um að örva atvinnulífið

Uppbyggilegar umræður fóru fram milli formanna helstu framboða til Alþingiskosninga á opnum fundi SA í morgun um hvernig þeir ætla að örva atvinnulífið á næstu árum. Fram kom mikill vilji til samstarfs við atvinnulífið og aðila vinnumarkaðarins til að tryggja stöðugleika, vinna að breytingum á skattkerfinu, auka fjárfestingar, móta peningastefnu til framtíðar og afnema gjaldeyrishöftin. Formennirnir sögðust  fúsir til að vinna saman að lausn viðfangsefna til að örva atvinnulífið og bæta lífskjör almennings. Formaður SA sagði í upphafi fundar samtökin reiðubúin til slíks samstarfs og vilja leggja sitt af mörkum.

Fundur SA fór fram í Hörpu í morgun. Hátt í þrjú hundruð manns hlýddu á umræðurnar auk þess sem  mikill fjöldi fylgdist með beinni útsendingu frá fundinum á vef SA.

Umræður í hörpu


Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, Katrín Jakobsdóttir, formaður VG og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, tóku þátt í umræðunum undir styrkri stjórn Orra Haukssonar, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins. Upptökur af umræðunum verða birtar á vef SA.

Í umræðum um stöðugleika kom fram að mikilvægir kjarasamningar séu framundan á vinnumarkaði sem ekki megi verða til þess að ný verðbólguskriða fari af stað. Verkefni stjórnmála og samningsaðila sé að auka aga við kjarasamningana og hagstjórn og vinna að sameiginlegri framtíðarsýn. Nokkur áherslumunur kom þó fram í væntingum formannanna til kjarasamninga og viðfangsefna þeirra.

Umræður vinstri

Annar þáttur umræðunnar snerist um skatta. Þar kom fram ríkur vilji til einföldunar skattkerfisins og samstarfs við atvinnulífið um breytingar. Algjör samstaða er meðal  formannana um að lækka tryggingagjaldið. Flestir þeirra telja að endurskoða þurfi veiðigjöld sem leggjast nú með miklum þunga á útgerðarfyrirtæki, einkum á lítil og meðalstór fyrirtæki. Einnig kom fram vilji til að einfalda og lækka vörugjöld til hagsbóta fyrir heimilin. Minnt var á að tryggja þurfi tekjur ríkis og sveitarfélaga og jafnframt að lækkun tiltekinna skatta þurfi ekki að lækka skatttekjur hins opinbera.

Umræður hægri

Í þriðja lagi ræddu formennirnir um að auka þurfi fjárfestingar og voru nefnd fjölmörg dæmi um hvernig það mætti gerast. Samkeppnishæft rekstrarumhverfi, afnám gjaldeyrishafta, hvati til nýsköpunar og pólitískur stöðugleiki hafi áhrif á vilja og getu til fjárfestinga. Umbóta sé þörf á þessum sviðum. Nýta þurfi orkuauðlindir landsins til hagsbóta fyrir landsmenn. Leggja þurfi áherslu á nýjar og skapandi greinar ásamt því að hvetja til nýsköpunar í rótgrónum fyrirtækjum.

Orri

Að lokum var fjallað um peningamál og gjaldeyrishöft. Þar var m.a. rætt um uppgjör þrotabúa föllnu bankanna og hvernig eignum þeirra verði ráðstafað. Einnig var rætt um mikilvægi aukins aga í hagstjórn, nauðsyn lægri verðbólgu og vaxta, afgangs á rekstri hins opinbera og lækkunar skulda þjóðarbúsins. Rætt var um umsóknina að ESB og hugsanlega upptöku evru en samstaða er að krónan verði gjaldmiðill Íslendinga næstu árin og því þurfi að tryggja stöðugleika hennar. 

Katrín Jakobsdóttir


Tengt efni:

Sjónvarpsupptaka frá fundinum

Ávarp formanns SA á fundinum

Umfjöllun fjölmiðla:

Viðtal við framkvæmdastjóra SA í Bítinu á Bylgjunni  - smelltu til að hlusta

Sjónvarpsfrétt RÚV - smelltu til að horfa 

Frétt Bylgjunnar um fjölbreytni í atvinnulífinu - smelltu til að hlusta

Frétt RÚV um stöðugleika

Frétt RÚV um samninga við kröfuhafa

Frétt RÚV um fundinn - smelltu til að hlusta

Frétt Eyjunnar - samantekt frá fundi

Frétt mbl.is

Frétt vb.is

 Stöðugleikinn