Full atvinna 2015 - hvað þarf til?

Á árunum 1963 til 2009 var hagvöxtur, þ.e. raunvöxtur landsframleiðslunnar, 3,6% að meðaltali árlega en störfum fjölgaði um 1,8% að meðaltali. Þannig fjölgaði störfum um hálfa prósentu við hverja prósentu í hagvexti á þessu tímabili. Á síðustu tveimur áratugum hefur hagvöxtur á Ísland ekki verið eins vinnuaflsfrekur og áður var og þetta hlutfall farið lækkandi. Á árunum 1999-2009 fjölgaði störfum um 0,33% að jafnaði við hverja prósentu í hagvexti og á árunum 1989-1999 um 0,38%. Þessi hlutföll verður  að hafa í huga þegar fjallað er um hvað þurfi mikinn hagvöxt til vinna á bug á núverandi atvinnuleysi og mæta þeirri fjölgun sem fyrirsjáanleg er á fólki á vinnualdri næstu árin.

Árið 2009 var fjöldi starfandi manna í landinu 167.800, atvinnulausir 13.100 og vinnuaflið þar af leiðandi 180.900. Sé ekki gert ráð fyrir neinum búferlaflutningum að eða frá landinu, þ.e. að jafnvægi verði milli aðfluttra og brottfluttra, má búast við að vinnuafli fjölgi um 0,6-0,8% árlega. Vinnuaflið verður samkvæmt því 188.000 manns árið 2015 og fjölgar um 7.000 manns frá árinu 2009. Það þurfa því að verða til 20.000 ný störf til þess að atvinnuleysi árið 2015 verði ekkert og ef störfum fjölgar um 16.000 mun atvinnuleysi verða liðlega 2%, sem verður að teljast ásættanlegt markmið.

Gera má ráð fyrir að hagvöxtur á komandi árum verði tiltölulega mannaflsfrekur vegna lágs raungengis krónunnar og mikils vaxtar þjónustugreina á borð við ferðaþjónustu þar sem fremur lítil fjárfesting er að baki hvers starfs miðað við framleiðslugreinar. Sé gengið út frá því að hverri prósentu í hagvexti fylgi 0,4% fjölgun starfa á næstu árum, og spár um 3% samdrátt landsframleiðslu á þessu ári gangi eftir, þá þarf hagvöxtur að vera 5% hvert áranna 2011-2015 til þess að störfum fjölgi um 16.000. Verði hagvöxtur minni, t.d. 3,5% að jafnaði, eins og hann hefur verið síðustu hálfa öld, þá verður atvinnuleysi 5,5% árið 2015 skv. sömu forsendum og ef hagvöxtur verður 2% þá verður atvinnuleysi rúm 8% árið 2015.

Atvinnuleysi við mismunandi hagvöxt 2011-2015
Smellið á myndina til að stækka!