Fróðlegur fundur um Ísland og ESB

Þann 31. janúar fór fram á Hótel Loftleiðum umræðufundur Samtaka atvinnulífsins um Ísland og Evrópusambandið. Á fundinum voru fluttar fjórar áhugaverðar framsögur og spunnust að þeim loknum gagnlegar umræður. Frummælendur voru Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, Michael Emerson, sérfræðingur frá Center for European Policy Studies, Katrín Júlíusdóttir, formaður þingmannanefndar EES og Edda Rós Karlsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Landsbankans.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra steig fyrstur á stokk og kynnti helstu niðurstöður skýrslu Evrópunefndar forsætisráðherra en Björn var formaður nefndarinnar. Verkefni nefndarinnar var að kanna framkvæmd EES-samningsins, önnur tengsl Íslands og Evrópusambandsins, sem og ýmis álitamál tengd hugsanlegri aðild Íslands að Evrópusambandinu. Í máli Björns kom skýrt fram að það væri mat hans að hagsmunum Íslendinga væri betur borgið utan ESB en innan og möguleikar þjóðarinnar til að hafa áhrif á stefnumál ESB væru meiri utan sambandsins.

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra

Næstur tók til máls Michael Emerson, sérfræðingur frá Center for European Policy Studies, en hann hefur m.a. sérhæft sig í málefnum sem tengjast stækkun ESB. Fór hann yfir mögulega framtíðarþróun ESB næstu ár og áratugi. Vék hann einnig að evrunni  og áhrifum hennar og sagði það alveg ljóst að á tímum fjármálaóstöðugleika  eins og nú ríkti væri það jákvætt fyrir lönd Evrópu að njóta evrunnar.  

Emerson, Katrín og Edda Rós

Katrín Júlíusdóttir, formaður þingmannanefndar EFTA kynnti helstu niðurstöður nefndarinnar um framtíðarhorfur Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Fór hún yfir helstu breytingar sem átt hafa sér stað á vettvangi EES og ESB frá árinu 1992 en ESB ríkjum hefur fjölgað úr 12 í 27 á þessum tíma. Velti Katrín upp þeirri spurningu hvort ekki væri orðið tímabært að endurskoða EES samninginn.

Þá flutti Edda Rós Karlsdóttir erindi um íslensku bankana, krónuna og evruna. Edda sagði krónuna hafa komið sér vel í upphafi útrásar bankanna, en í kjölfar útrásar þeirra væri hlutfallslega dýrt að reka krónu-banka. Miklar og viðvarandi sveiflur í hagkerfinu og hár vaxtamunur við útlönd gerðu það ennfremur að verkum að íslenska krónan er í dag flokkuð meðal nýmarkaðsmynta - sem væri áhættuþáttur í sjálfu sér.

Glærur frummælenda má nálgast hér að neðan.

Fundurinn var opinn fulltrúum í stjórn SA og aðildarsamtaka SA auk starfsmanna samtakanna. Þann 17. janúar fór fram samskonar umræðufundur um gjaldmiðilsmál á vegum SA. Í byrjun október beindi stjórn SA því til allra aðildarsamtaka SA að taka gjaldmiðilsmálið til umfjöllunar. Kannað yrði hvort þær breytingar sem hafa orðið á íslensku atvinnulífi og efnahagslífi leiði til endurmats á því hvort einstakar atvinnugreinar telji sér betur borgið með öðrum gjaldmiðli en íslensku krónunni. Fyrrgreindir fundir eru liður í þessari umfjöllun.

Sjá nánar glærur frummælenda:

Björn Bjarnason

Michael Emerson

Katrín Júlíusdóttir

Edda Rós Karlsdóttir