Framtíðarhorfur á evrópskum vinnumarkaði

Föstudaginn 30. maí mun EURES, samevrópsk vinnumiðlun sem rekin er á vegum Vinnumálastofnunar, efna til ráðstefnu þar sem fjallað verður um fyrirséðan skort á sérfræðingum og samkeppni um hæfasta fólkið á EES-svæðinu. Í tilkynningu frá EURES segir að ein helsta áskorun evrópsks vinnumarkaðar í framtíðinni verði að laða til sín hæfa sérfræðinga og stjórnendur á alþjóðavísu, m.a. vegna öldrunar þjóða Evrópu. Er þetta talin ein meginforsenda áframhaldandi hagvaxtar og samkeppnishæfni  svæðisins.

Ráðstefnan markar upphaf samstarfs EURES á Íslandi, Noregi, Írlandi og Danmörku um aðgerðir til að laða til landana sérhæft starfsfólk. Þróunin í löndunum hefur um margt verið svipuð. Mikil þensla hefur verið á vinnumarkaði og framboð á starfsfólki ekki haldið í við eftirspurn. Því hefur verið mætt með vinnuframlagi erlends starfsfólks frá nýju aðildarríkjum ESB. EURES segir að nú sé þörfin á sérhæfðu starfsfólki að verða meira aðkallandi og munu forstöðumenn EURES í fyrrgreindum löndum fara yfir stöðu mála og ástand á vinnumarkaði.

Ráðstefnan er haldin á Flughótelinu í Keflavík þann 30. maí n.k. og hefst kl. 9. Ráðstefnan fer fram á ensku og eru allir velkomnir.

Dagskrá ráðstefnunnar má nálgast á http://www.eures.is/  

Þátttaka tilkynnist á eures@vmst.is