Framleiðni vex – en kaupmáttur hefur vaxið hraðar undanfarin ár

Framleiðni virðist nú fara vaxandi á ný hér á landi eftir að hafa staðnað um sinn. Framleiðsla á vinnustund hefur að meðaltali vaxið um 2% á ári frá 1995, eða mjög nálægt því meðaltali sem landsmenn áttu að venjast alla öldina sem leið.  Heildarframleiðni, það er afköst á hverja einingu fjármagns og vinnuafls, óx um 1,2% á ári á þessum tíma.  Þetta er svipað eða heldur minna en gekk og gerðist í öðrum iðnríkjum á tíunda áratug aldarinnar.  Tölurnar eru reistar á gögnum Þjóðhagsstofnunar um landsframleiðslu, fjármagn, laun og verðlag og Vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar.  Óvissa er nokkur og tölur um 2001 má aðeins túlka sem vísbendingu um hvert stefnir.  Ef þensluskeiðinu er að ljúka, eins og margir telja, er líklegt að draga muni úr framleiðni fyrst um sinn, því að í fyrirtækjunum verður þá fjármagn og vinnuafl sem ekki nýtist að fullu.

Kaupmáttur launa fer eftir afköstunum
Fyrri myndin hér fyrir neðan sýnir greinilega að náið samhengi er með

kaupmætti launa og framleiðslu á unninn tíma.  Til langframa batna kjör ekki nema meira sé framleitt.  Samhengið er þó ekki algert.  Í ládeyðunni upp úr 1990 jókst kaupmáttur nokkru hægar en afköstin og í þenslunni eftir 1995 hefur þetta snúist við.  Undanfarin ár hefur verið mikil samkeppni um vinnuafl á Íslandi og kaupið hefur hækkað hratt.  Frá 1995-2000 jókst kaupmáttur á vinnustund um tæplega 19%, á meðan afköstin jukust aðeins um rúm 10%.  Svo mikil kauphækkun umfram framleiðni stenst ekki lengi.  Hún endar annað hvort með aukinni verðbólgu eða auknu atvinnuleysi, eða - sem líklegast er - blöndu af hvoru tveggja.

Núna hefur verðbólga aukist um sinn.  Verðbólgan rýrir kaupmátt launa.  Ef draga fer úr þenslu á vinnumarkaði (sem ekki er víst) hættir kaupmátturinn líkast til að halda í við framleiðni strax á þessu ári (eins og gert er ráð fyrir á myndinni) eða því næsta.

Mikill hagvöxtur leiðir ekki endilega til bættra lífskjara
Varasamt er að einblína á skammtímahagvöxt. Á mynd 2 sést að hagvöxtur og framleiðni fylgjast ekki alltaf að. Myndin sýnir vöxt vergrar

landsframleiðslu og heildarframleiðni, það er afkasta vinnuafls og fjármagns, en heildarframleiðni breytist reyndar mjög svipað og framleiðni vinnuafls (sem sjá má á fyrri myndinni).  Eðlilegt er að landsframleiðsla aukist nokkru meira en framleiðni að jafnaði, vegna þess að fólki fjölgar á vinnumarkaði og fjármagn eykst, en athygli vekur hve munurinn er mikill nær allan tímann frá 1995 til 2000.  Aukin framleiðni er rótin að bættum lífskjörum (samanber umfjöllunina hér að framan) og hagvöxtur langt umfram hana hefur í mesta lagi í för með sér skammtímaávinning.  Þenslan hefur sennilega ýtt undir hagræðingu árin 1996 og 1997, á meðan fjármagn og vinnuafl var enn illa nýtt, en það stóð ekki lengi. 

Þegar til langs tíma er litið rýrir þenslan lífskjörin.  Áætlanir fólks og fyrirtækja raskast þegar kaupmáttur sveiflast mikið.  Niðursveiflan sem kemur í kjölfar þenslunnar hefur mikið atvinnuleysi í för með sér .  Þess vegna er hægur og traustur hagvöxtur ákjósanlegri en hraður og ótryggur vöxtur.  Með því að sneiða hjá hagsveiflum er lagður grunnur að meiri langtímahagvexti en ella - og betri lífskjörum þegar til langs tíma er litið.