Framkvæmdastjórn SA: Eyðum óvissu - stórauknar fjárfestingar forsenda hagvaxtar

Samtök atvinnulífsins vilja vekja sérstaka athygli á þýðingu fjárfestinga fyrir íslenskt samfélag nú þegar afar misvísandi skilaboð um hagþróun koma fram og skapa mikla óvissu um þróun atvinnulífsins og efnahags þjóðarinnar. Þróun á vinnumarkaði sýnir minnkandi atvinnuleysi og að fjöldi starfa á fyrri árshelmingi þessa árs hafi verið svipaður og í fyrra. Í síðustu viku birti Hagstofan svo aðrar tölur sem gefa til kynna að afraksturinn af störfum þjóðarinnar hafi verið 7,3% samdráttur í landsframleiðslu milli fyrri árshelminga 2009 og 2010 og leiðrétti þannig niður á við fyrri tölur um hagvöxt í byrjun þessa árs og í lok þess síðasta.

Í ríkjum með áreiðanlegar hagtölur væri slíkt framleiðniáfall í atvinnulífinu tilefni til neyðarviðbragða og rannsókna, en íslenskt atvinnulíf þarf að búa við óvissu og óáreiðanlegar hagtölur.

Skýr skilaboð þurfa að koma frá ríkisstjórninni um að allt verði gert til að eyða þeirri óvissu sem hagtölur gefa til kynna og benda til þess að staðan sé mun lakari en áður var talið. Þar skiptir mestu að ríkisstjórnin sýni skýran og ótvíræðan vilja til þess að fjárfestingar í atvinnulífinu og innviðum samfélagsins aukist og athafnir fylgi orðum.

Lítil og meðalstór fyrirtæki þurfa að hafa aðgang að lánsfé á viðráðanlegum kjörum og skattaleg kjör verða að vera þeim hagstæð svo þau geti fjárfest. Stór fjárfestingaráform í atvinnulífinu, þ.e. í orkuframleiðslu og orkunýtingu, verða að ná fram að ganga.

Stórfjárfestingar í atvinnulífinu dragast enn og ríkisstjórnin verður að taka afgerandi pólitíska forystu til þess að af þeim verði. Ríkisstjórnin verður einnig að vinda ofan af fjölmörgum mistökum við skattlagningu atvinnulífsins sem gerð voru síðastliðinn vetur þannig að öll íslensk fyrirtæki, stór og smá, hafi ótvíræða hvata til fjárfestingar og atvinnusköpunar. Áform um aðkomu lífeyrissjóða að mikilvægum fjárfestingum í samgöngumannvirkjum og öðrum innviðum samfélagsins þurfa jafnframt að ganga eftir.

Stórauknar fjárfestingar eru forsenda hagvaxtar á næstu árum. Auknar fjárfestingar skapa bæði atvinnu og eftirspurn á framkvæmdatímanum, en þær leggja jafnframt grunn að nýjum og arðbærum störfum til lengri tíma og bæta þannig lífskjör þjóðarinnar í bráð og lengd.

Ályktun framkvæmdastjórnar Samtaka atvinnulífsins 7. september 2010.